Skjálfti upp á tæplega 3,3 varð við Lundarreykjadal suðvestur af Húsafelli rétt fyrir klukkan 19 í kvöld. Þetta staðfestir Veðurstofa Íslands í samtali við mbl.is.
Tveir hafa þegar mælst yfir 3 á svæðinu það sem af er ári og er þetta því þriðji stóri skjálftinn á stuttu tímabili.
Alls hafa um 160 skjálftar orðið á svæðinu á einni viku, eða frá því á þriðjudaginn í síðustu viku. Skjálftahrinan sem um ræðir hófst í desember. Stærsti skjálftinn var fyrir viku, 18. janúar, og var 3,3 að stærð.
Er því skjálftinn í kvöld sá næststærsti í hrinunni.
Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði, sagði við Morgunblaðið í gær að skjálftar hrinunnar væru fremur smáir í sögulegu samhengi en þó rannsóknarefni.
Þá væri engin ástæða til þess að ætla að skjálftarnir væru tengdir kvikuhreyfingum þar sem ekki væri um eldvirkt svæði að ræða.