Þingmaður gagnrýnir vændiskaup Einars harðlega

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar. Ljósmynd/Aðsend

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, gagnrýnir Einar Hermannsson, fráfarandi formann SÁÁ, harðlega í Facebook-færslu í dag og minnir á að refsingin við athæfi því sem hann er bendlaður við varði fangelsisvist. 

„Fáir ættu að þekkja betur þekkja betur hið ömurlega samhengi fíknar og vændis en formaður SÁÁ. Fáir ættu að skilja betur þann ævintýralega aðstöðumun sem er á kaupanda og seljanda í þeim aðstæðum,“ segir í færslu Þorbjargar.

Einar sagði af sér í gær vegna þessa og sendi yfirlýsingu til fjölmiðla þar sem hann sagðist hafa svarað auglýsingu um kynlíf á netinu. Þar lýsti hann þeirri hegðun sem ófyrirgefanlegri en tók fram að það hefði ekki haft áhrif á störf sín fyr­ir SÁÁ.

Orðin sýni fram á skilningsleysi 

Þorbjörg gefur lítið fyrir þau orð Einars: „[...] maður sem segir opinberlega að þessi hegðun hafi ekki haft áhrif á störf hans er um leið að segja að hann hafi enga innsýn í aðstæður og engan skilning á veruleika kvenna sem eru langt leiddar í neyslu. En auðvitað hefur hann allar þessar upplýsingar um þá stöðu einmitt vegna starfsins.“

Stundin greindi frá því í gær að kona, sú sem Einar keypti vændið af hafi verið og sé enn skjólstæðingur SÁÁ.

Vændiskaup refsiverð samkvæmt hegningarlögum

Þingmaðurinn bendir að lokum á að háttsemi Einars sé refsiverð og varði eins árs fangelsisrefsingu samkvæmt lögum. Þorbjörg starfaði hjá ríkissaksóknara en er skráð í leyfi á vefsíðu embættisins.
Þessi hegðun hans er reyndar langt umfram það að vera bara vond, þetta er hegðun sem varðar við 1 árs fangelsi. Hegðun sem fjallað er um í kynferðisbrotakafla hegningarlaganna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert