Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis boða til upplýsingafundar á morgun, miðvikudag, klukkan 11.
Þetta segir í tilkynningu frá Almannavörnum.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Alma Möller landlæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn Almannavarna fara yfir stöðu mála vegna faraldursins.
Katrín Jakobsdóttir sagði í samtali við mbl.is í dag að stefna stjórnvalda í faraldrinum tæki nú miklum breytingum. Nú verði ekki stuðst við aðferðafræði temprunar, sem gengur út á að hemja fjölgun smita.
Katrín sagði að nú yrði horft til þess að taka fyrstu skrefin í átt að opnun samfélagsins og er breytingin á sóttkví til marks um það en með breytingunni þarf fólk sem útsett er fyrir smiti utan heimilis einungis að fara í smitgát í stað sóttkvíar.
Þá verða börn og unglingar algjörlega undanþegin reglum um smitgát.
Um 13 þúsund eru nú í sóttkví.