Tvö tré fuku upp með rótum í Reykjavík

Björgunarsveitamenn á vettvangi.
Björgunarsveitamenn á vettvangi. Ljósmynd/Þröstur Guðlaugsson

Háannatími björgunarsveitanna vegna óveðursins var frá hádegi og fram á sjöunda tímann í dag. Verkefnin voru mismunandi en tvö tré í Reykjavík fuku upp með rótum á meðan lægðin reið yfir.

„Ég á eftir að sakna þessa gamla trés sem gafst líklega bara upp á okkur mannfólkinu hallaði sér upp að næsta húsi í vindinum áðan,“ segir Þröstur Guðlaugsson, ljósmyndari, í færslu á hverfasíðu Vesturbæinga þar sem hann sýndi myndir af björgunarsveitamönnum að eiga við tré sem fauk upp við Brávallagötu.

Einkennilegustu verkefni dagsins

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, sagði að tilkynningarnar tvær hafi verið þær óvenjulegustu sem bárust  björgunarsveitum í dag: „Ég hef ekki heyrt af neinum tilkynningum um slys á fólki en það þurfti að eiga við þessi tré og saga þau niður.“

Tréð fauk upp en það var í grennd við Brávallagötu.
Tréð fauk upp en það var í grennd við Brávallagötu. Ljósmynd/Þröstur Guðlaugsson

Annasamast á suðvesturhorninu

Davíð segir önnur verkefni björgunarsveitanna hafa verið hefðbundnari. Trampólín á flugi og þakplötur að rifna sem Davíð segir meðal annars mega rekja til þess að vindáttin var ekki sú sama og í fyrri lægðum þessa árs.

„Hún náði að bíta á hluti sem lægðirnar hingað til hafa ekki bitið á,” segir Davíð.

Eftir því sem leið á eftirmiðdegið lægðu vindar um allt land en mest var álagið á Suðurnesjum, í Vestmannaeyjum og á höfuðborgarsvæðinu.

Á sjöunda tímanum voru verkefni enn að berast björgunarsveitum en álagið að minnka statt og stöðugt.

Næg verkefni biðu björgunarsveitamönnum á þökum landsmanna í dag, til …
Næg verkefni biðu björgunarsveitamönnum á þökum landsmanna í dag, til að mynda í Vestmannaeyjum. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert