Veirunni verði ekki útrýmt úr þessu

Fjölmargir eru enn óbólusettir við veirunni.
Fjölmargir eru enn óbólusettir við veirunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrjú meginlíkön hafa verið sett fram um framvindu kórónuveirufaraldursins. Fyrri tvö líkönin eru líklegust en það þriðja gæti leitt til tilurðar nýrra gerða, að því er fram kemur á Vísindavefnum.

Spurt er hvort Ómíkron muni útrýma Delta og öðrum afbrigðum veirunnar.

Líkönin eru að eitt afbrigði verði allsráðandi og hin deyi út. Að tvö eða fleiri afbrigði verði ríkjandi, en tíðni þeirra sveiflist milli svæða og tímabila. Og að tvö eða fleiri afbrigði myndi nýtt blendingsafbrigði, með endurröðun erfðaefnis.

Flest smit voru Delta-afbrigðið fyrir stuttu

„Að öllu öðru jöfnu ætti það afbrigði sem fjölgar sér hraðast að vinna og verða allsráðandi í stofninum. Samkvæmt því ætti ómíkron að vinna og útrýma hinum gerðunum. Delta var til dæmis ábyrgt fyrir 99% smita í Bandaríkjunum í upphafi desember 2021, en þegar þetta svar er skrifað, um 45 dögum síðar, er ómíkron ábyrgt fyrir meirihluta þeirra. Ómíkron smitast hraðar og ætti samkvæmt því að verða allsráðandi,“ segir á Vísindavefnum.

Bent er á að þó ein gerð rísi mjög hratt í tíðni sé alls ekki öruggt að hún verði allsráðandi. Það megi meðal annars læra af Delta en það var mest smitandi afbrigðið sem varð til á fyrsta ári faraldursins og stefndi í að það yrði allsráðandi, þangað til Ómíkron kom til sögunnar.

Getum haft áhrif á veiruna

Ekki er hægt að álykta að eldri gerðir veirunnar deyi út með tilkomu ómíkron. Því ekki er mögulegt að meta líkurnar á því hverja af þessum þremur leiðum faraldurinn fer,“ segir á Vísindavefnum.

Þar segir enn fremur að því fleiri sem smitist, miðað við fjölda óbólusettra á heimsvísu og tregðu fólks til að styðja smitvarnir sé líklegra að seinni tveir kostirnir raungerist.

„Miðað við að ómíkron veldur mildari einkennum en Delta, að minnsta kosti, þá væri ákjósanlegt að hægt væri að halda niðri smitum þangað til það afbrigði hefur útrýmt hinum. Þannig að jafnvel þótt að ómíkron sé mildara, er samt ástæða til þess að viðhalda takmörkunum, til að reyna að minnka líkurnar á möguleikum 2 og 3. Framtíðin er veirunnar því henni verður ekki útrýmt úr þessu, en við getum ennþá haft áhrif á möguleikana sem standa henni til boða.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert