Dómssátt hefur náðst á milli sveitarfélagsins Hornafjarðar og félagsins Hátíðni ehf. sem lagt hafði fram kæru á hendur bæjarstjóranum og fleiri kjörnum fulltrúum vegna mögulegs auðgunarbrots í starfi. Eigandi Hátíðni hélt því fram að sveitarfélagið hefði gefið út tilhæfulausan reikning á félagið til að skuldajafna á móti kröfu sem gerð hafði verið á sveitarfélagið.
Dómssátt var gerð um þá reikninga sem var deilt um og lauk þar með efnislegum ágreiningi málsaðila. Hluti af samkomulaginu fól í sér að kæra á hendur Matthildi Ásmundardóttur, bæjarstjóra Hornafjarðar, og fleiri öðrum kjörnum fulltrúm var dregin til baka.
Forsaga málsins var sú að Hornafjörður var með þjónustusamning við Hátíðni ehf. um rekstur tölvu- og upplýsingakerfis í tugi ára en samningnum var sagt upp í júní 2017. Hluti af þjónustunni voru gagnatengingar sem sveitarfélaginu bar að hætta allri notkun á við samningslok.
Samkvæmt kærunni var notkun hins vegar ekki hætt og sendi Hátíðni sveitarfélaginu reikninga fyrir notkuninni. Um þá skapaðist ágreiningur en þeir voru ekki verið greiddir þrátt fyrir greiðsluáskoranir.
Í kærunni kom fram að í tilraun sveitarfélagins til að komast undan greiðsluskyldu hafi verið útbúinn ólögmætur reikningur á Hátíðni ehf., vegna meintrar leigu á aðstöðu í Gamla vatnstanknum, húsnæði í eigu sveitarfélagsins. En eigandi félagsins var með lítið loftnet uppi á tanknum.
Hafnaði hann greiðsluskyldu á þeim forsendum að samkomulag hafi verið í gildi á milli hans og sveitarfélagsins þess efnis að hann hefði lykil að vatnstanknum og þjónusti sveitarfélagið, meðal annars með því að hleypa inn starfsmönnum fjarskiptafyrirtækja sem eru þar með búnað.