Framkvæmdastjóri samtaka ferðaþjónustunnar telur það raunhæfa nálgun hjá Íslandsbanka að færri ferðamenn komi hingað til lands í ár en áður hafði verið talið. Samkvæmt greiningu bankans sem birtist í nýrri Þjóðhagsspá í dag er talið að um 1,1 til 1,2 milljónir ferðamanna muni leggja leið sína til Íslands í ár. Spá bankans í september var heldur bjartsýnni, en þá var talið að um 1,5 milljónir ferðamanna kæmu til landsins árið 2022.
„Ég held að þetta sé raunhæf nálgun hjá Íslandsbanka. Þessi bylgja sem er núna og áhrifin af henni bæði hérlendis og erlendis hafa orðið til þess að við höfum fengið töluvert af afbókunum. Það er minna um farþega núna í janúar, febrúar og mars væntanlega vegna þess,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri samtaka ferðaþjónustunnar (SAF). Sumarið líti þó ágætlega út, meðal annars hvað bókunarstöðu varðar.
Spá um 1,5 milljónir ferðamanna á þessu ári hafi þótt í bjartsýnni kantinum á skrifstofu Samtaka ferðaþjónustunnar.
„Ég held að margt þyrfti að ganga upp varðandi markaðssetningu og faraldurinn til þess að það yrði að veruleika. Þannig það kemur okkur ekki á að óvart að þetta sé að aðlagast í þessa áttina miðað við hvað er að gerast fyrstu mánuði ársins.“
Gangi spá Íslandsbanka eftir má gera ráð fyrir að fjöldi ferðamanna á næsta ári verði um 1,5 milljónir og um 1,7 milljónir árið 2024, sem er sambærilegt því sem var árið 2019. Þegar mest lét árið 2018 komu hins vegar um 2,3 milljónir ferðamanna hingað til lands.
Jóhannes segir þessar tölur í samræmi við það sem greiningaraðilar og flugfélögin bæði hér heima og úti hafi verið að spá. Að ferðaþjónustan verði almennt ekki komin í fullan gang aftur fyrr en árið 2024.
„Svo kemur þetta kannski í ljós núna eftir því hvað gerist í sumar og seinni hluta ársins. Þá geta menn kannski farið að horfa betur inn í framtíðina og sjá hvort þetta tekur eitthvað skemmri tíma. En eins og staðan er í dag þá held ég að sú tímalína haldi alveg sínu gildi hingað til. Að þetta verði komið aftur svipaðan stað og árið 2019 árið 2024.“
Hann segir óvissuna hins vegar mikla og að ýmislegt geti breyst. Margar breytur spili þar inn í. „Þó þetta virðist allt vera á niðurleið þá erum við búin að læra það að það er engin fullvissa í neinu varðandi þetta.“
En jákvæð teikn eru á lofti varðandi sumarið.
„Þetta lítur ágætlega út fyrir sumarið núna, bókunarstaða og annað, ef þetta gengur allt saman eftir, að það verði hægt að fara að slaka á og veröldin fari að ná sér upp úr þessu kraðaki öllu saman með vorinu. Þá held að við séum fær um að ná nokkuð góðu sumri og töluverðum verðmætum út úr því og svo inn í veturinn. Þá held ég að ferðavilji í heiminum fari að glæðast nokkuð hratt.“