„Minn bakpoki er ansi þungur eftir lífsreynslu síðustu ára og hefur markað mig á ýmsan hátt þó ég beri það ekki utan á mér,“ skrifar Vilborg Arna Gissurardóttir, fjallagarpur og pólfari, á facebooksíðu sína. Hún er fyrrverandi kærasta Tomaszar Þórs Verusonar en önnur fyrrverandi kærasta hans lýsti ofbeldi sem hann beitti hana í sambandinu.
Þar segir að konur sem Tómasz hafi beitt ofbeldi séu fleiri en ein og tvær og Vilborg segist vera ein þeirra kvenna sem um ræðir.
„Svona lífsreynsla markar mann fyrir lífstíð og skilur eftir ör á sálinni. Með aðstoð góðs fólks og tímanum grynnka örin þó þau hverfi kannski aldrei alveg,“ skrifar Vilborg Arna.
Hún styður þá frásögn sem hefur komið fram og kveðst vera í sömu sporum og konan sem lýsti ofbeldi af hendi Tómaszar í facebookfærslu í hópnum Fjallastelpur.
„Þolendur og gerendur eru ekki steyptir í eitt fast mót eins og hefur skýrt hefur komið fram á síðastliðnum vikum. Það erum við sem samfélag að læra betur og betur. Það skiptir máli að standa saman og umvefja þolendur ásamt því að úrlausnir séu til staðar fyrir gerendur. Fyrir mig persónulega hefur sú vakning sem hefur átt sér stað að undanförnu skipt miklu máli og það er mikilvægt að við höldum áfram á þeirri braut. Ég mun leggja mitt á vogarskálarnar þegar kemur að þeirri umræðu,“ skrifar Vilborg Arna.
Ekki hefur náðst í Tómasz Þór Veruson í dag.