Á tímabilinu frá 2015 til 2021 var 30 til 40 prósentustiga munur á launahækkunum þeirra starfsstétta sem hækkuðu mest og minnst. Verkafólk hækkaði mest, um 71%, og stjórnendur minnst, um rúmlega 40%.
Á sama tíma hækkuðu laun í helstu atvinnugreinum á almenna markaðnum í kringum 60%, nema í fjármála- og vátryggingarstarfsemi þar sem hækkunin var um 50%.
Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.
„Þessar tölur eru skýr vísbending um að sú áhersla sem lögð hefur verið á mesta hækkun lægstu launa hafa náð nokkuð vel fram að ganga á þessu tímabili. Á þessum tæpu sjö árum er 30-40 prósentustiga munur á launahækkunum þessara starfsstétta,“ segir í Hagsjánni.
Munurinn á milli atvinnugreina hvað launaþróun varðar er mun minni en á milli starfsstétta. Frá janúar 2015 fram til október 2021 hafa laun í verslun og viðgerðum hækkað mest, eða um rúm 62%. Þar koma veitustarfsemi og flutningar og geymsla skammt á eftir.
Fjármála- og vátryggingarstarfsemin hefur nokkra sérstöðu með um 10 prósentustiga minni hækkun en hinar greinarnar á þessu tímabili.
Kjarasamningar á almenna markaðnum renna flestir út í lok október á þessu ári og flestir samningar á þeim opinbera í lok mars 2023.
Kröfugerð og undirbúningur fyrir gerð nýrra kjarasamninga fer því brátt að hefjast á almenna markaðnum og er jafnvel hafinn, að því er segir í Hagsjánni.