Hörður J. Oddfríðarson stjórnarmaður SÁÁ hefur beðið Jódísi Skúladóttur þingmann Vinstri-grænna afsökunar á atviki sem átti sér stað þegar hún var sautján ára og Hörður þrítugur.
Í færslu sinni á Facebook sakar Jódís Hörð um að hafa misnotað stöðu sína og m.a. káfað á henni. Þremur árum síðar tók Hörður á móti henni í eftirmeðferð á vegum samtakanna.
Hörður segir í yfirlýsingu sinni að skömmu eftir atvikið sem Jódís lýsir hafi hann sjálfur farið í meðferð og hafið störf hjá samtökunum skömmu síðar.
„Ég rengi ekki frásögn Jódísar á nokkurn hátt og bið hana afsökunar á því sem gerðist og þeim afleiðingum sem það hefur haft fyrir hana,“ segir Hörður í yfirlýsingunni.
Hann segist enn fremur eiga í samræðum við yfirmenn sína hjá SÁÁ um framtíð sína hjá samtökunum og hefur hann óskað eftir því að úttekt verði gerð á störfum hans þar síðastliðin 25 ár.