Hástökk í sölu í Góða hirðinum

Góði hirðirinn. Sala jókst í verslun í Fellsmúla og þjónusta …
Góði hirðirinn. Sala jókst í verslun í Fellsmúla og þjónusta hefur verið aukin með verslun við Hverfisgötu og netverslun. Þá er farið að vakta betur hvað fer í nytjagáma á endurvinnslustöðvum svo ónýtir hlutir fari síður þangað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Góði hirðirinn er hástökkvari ársins á vettvangi endurnotkunar og meðferðar úrgangs, en á þessum nytjamarkaði SORPU jókst sala um 26% milli ára. Salan hefur aldrei verið meiri og nálgaðist þúsund tonn í fyrra. Endursöluhlutfallið fór úr rúmlega 57% árið 2020 í um 68% á nýliðnu ári og nefna má að það var aðeins 20% árið 2017.

Þessar tölur segja að stöðugt meira sé nýtanlegt af því sem kemur í nytjagáma á endurvinnslustöðvum, en í hverri viku á síðustu árum hafa borist tugir gáma hlaðnir nytjahlutum í Góða hirðinn. Magnið sem skilað var í gámana jókst í fyrra frá árinu á undan, en ef litið er til lengri tíma þá hefur dregið úr magninu, en salan aukist.

Lífsstíll og gott verð

Gunnar Dofri Ólafsson, samskipta- og þróunarstjóri Sorpu, segir að viðskiptavinir Góða hirðisins séu í raun þverskurður af samfélaginu. Hægt sé að fá góða vöru þar á hagstæðu verði, stöðugt fleiri hafi gert endurnot að lífsstíl, safnarar leggi gjarnan leið sína í Góða hirðinn og nokkuð sé um að vara sé keypt þar að morgni og boðin til endursölu annars staðar eftir hádegi svo nokkuð sé nefnt.

Graf/mbl.is

Gunnar Dofri segir að sölutölurnar skjóti stoðum undir þá ákvörðun að opna útibú á Hverfisgötu, sem hafi gengið mjög vel. Sömu sögu sé að segja um opnun netverslunar Góða hirðisins, en báðar þessar einingar luku sínu fyrsta heila starfsári um áramót. Hann segir að aukin sala sé meðal annars athyglisverð vegna þess að í fyrra þurfti að loka versluninni í Fellsmúla og efnissölu Góða hirðisins tímabundið og grípa til annarra aðgerða vegna faraldursins eins og hólfaskiptingar í Fellsmúlanum.

„Sorpvísitalan“ lækkaði í fyrra þriðja árið í röð, ef miðað er við heildarmagn úrgangs sem barst til Sorpu bs. Óvíst er að þessa vísitölu sé að finna í gögnum Hagstofunnar, en á myndinni hér að ofan má ugglaust lesa eitthvað um aðstæður í þjóðfélaginu út úr þeim talnabrunni.

Áætlað er að heildarmagn sorps hafi verið 198 þúsund tonn á síðasta ári, en endanleg tala liggur ekki fyrir. Árið 2020 endaði í 212 þúsund tonnum og 2019 var magnið ríflega 225 þúsund tonn. Metárið í þessu samhengi er 2018, en þá bárust Sorpu um 263 þúsund tonn af úrgangi.

Samkvæmt upplýsingum frá Gunnari Dofra minnkaði magn þess úrgangs sem skilað var til urðunar í Álfsnesi en samkvæmt bráðabirgðatölum nam það rúmlega 99 þúsund tonnum í fyrra, en árin á undan nam það 105 þúsund tonnum 2020 og 131 þúsund tonnum 2019. Magn af blönduðum úrgangi frá sorphirðu stendur nokkurn veginn í stað á milli ára, en þar er um að ræða sorp frá heimilum.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag, 27. janúar. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert