Innanríkisráðherra hefur skipað nýja landskjörstjórn frá og með 1. janúar 2022. Landskjörstjórn er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem hefur yfirumsjón með framkvæmd kosninga og annast framkvæmd kosningalaga, sbr. 14. gr. laganna.
Landskjörstjórn heyrir stjórnarfarslega undir ráðherra sem fer með málefni kosninga. Skipunartími í landskjörstjórn er fimm ár en þó þannig að hvert ár rennur út skipunartími eins stjórnarmanns. Í bráðabirgðaákvæði III í kosningalögum segir að þegar skipað sé í fyrsta skipti í landskjörstjórn skv. 12. gr. skuli formaður stjórnar skipaður aðalmaður til fimm ára og varamaður hans til jafnlangs tíma, að því er segir í tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu.
Aðrir stjórnarmenn sem kosnir eru af Alþingi skulu skipaðir til eins árs og þriggja ára og varamenn þeirra til jafnlangs tíma. Hlutkesti skal ráða stjórnartíma hvors fulltrúa. Annar fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga skal skipaður til tveggja ára og hinn til fjögurra ára og varamenn þeirra til jafnlangs tíma. Hlutkesti skal ráða stjórnartíma hvors fulltrúa Sambandsins.
Formaður landskjörstjórnar er Kristín Edwald, lögmaður skipuð til fimm ára, aðrir í landskjörstjórn eru: Ólafía Ingólfsdóttir, kosin af Alþingi, skipuð til eins árs, Hulda Katrín Stefánsdóttir, kosin af Alþingi, skipuð til þriggja ára, Magnús Karel Hannesson, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, skipaður til tveggja ára og Ebba Schram, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, skipuð til fjögurra ára.
Varamenn í landskjörstjórn eru: Iðunn Garðarsdóttir, kosin af Alþingi, skipuð til fimm ára, Arnar Kristinsson, kosinn af Alþingi, skipaður til eins árs, Helgi Bergmann, kosinn af Alþingi, skipaður til þriggja ára, Ágúst Sigurður Óskarsson, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, skipaður til tveggja ára og Elín Ósk Helgadóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, skipuð til fjögurra ára, segir ennfremur.