Mögulegt er að neyðarstig á Landspítala verði lækkað niður á hættustig í næstu viku. Fjarvera starfsmanna hefur sett strik í reikninginn við endurskoðun á neyðarstigi spítalans undanfarið.
Á annan tug starfsmanna Klíníkarinnar sem lagt hafa hönd á plóg innan Landspítala síðustu vikur snúa aftur til starfa á Klíníkinni í næstu viku.
Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala er neyðarstigið í sífelldri endurskoðun en að vonir standi til að hægt verði að aflétta því í næstu viku. Smitfjöldi hefur haldist nokkuð jafn síðustu daga og fjöldi innlagna sömuleiðis.
Breytingar á sóttkví hafi þó ekki haft áhrif á mönnun Landspítala og því sé bið eftir því að sýktir starfsmenn snúi aftur til vinnu að einangrun lokinni.