Áform stjórnvalda eins og þau birtast annars vegar í sáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og hins vegar í framlagðri tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu til ársins 2026 fara ekki saman í veigamiklum atriðum.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í umsögn Alþýðusambands Íslands um fjármálastefnuna og fjallað er um í nýjasta mánaðaryfirliti sviðs stefnumótunar og greininga.
Í umsögn ASÍ er bent á að meginstefnumörkun þeirrar fjármálastefnu, sem lögð var fyrir Alþingi í formi þingsályktunar í nóvember í fyrra, sé sú að hækkun skulda hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu verði stöðvuð eigi síðar en 2026.
Eigi þetta markmið að verða að veruleika þurfi halli hins opinbera að minnka ár frá ári. Samkvæmt greinargerð með fjármálastefnu fer áætlaður halli úr tæplega 6% af vergri landsframleiðslu í ár í tæplega 1% undir lok tímabilsins.
Í greinargerðinni kemur fram að aukið aðhald muni fyrst og fremst koma fram á útgjaldahliðinni, þ.e. í gegnum niðurskurð. Í umsögn ASÍ segir að þetta merki að aðhaldið í stefnunni byggi á því að velferðarkerfið verði notað sem helsta hagstjórnartækið.
Þá segir einnig í umsögninni að slík stefna geti aldrei orðið grundvöllur fyrir stöðugleika á vinnumarkaði eða til að ná markmiðum stjórnvalda um velsæld og úrbætur á sviði velferðarmála.
„Það er ákveðið aðhald sem er kynnt í fjármálastefnunni sem að er ekki í takt við þær velferðarumbætur sem dregnar eru upp í stjórnarsáttmálanum, sem gefur til kynna að þar verði sótt fram á meðan að fjármálastefnan segir eiginlega hið öfuga,“ segir Róbert Farestveit, sviðstjóri og hagfræðingur hjá ASÍ. Hann bætir við að fleiri hafi vakið máls á þessu, t.d. fjármálaráð.
„Í greinargerð fjármálastefnunnar eru dregnar fram ýmsar áskoranir sem felast í aukinni útgjaldaþörf, meðal annars út af öldrun þjóðar og þörfin á meiri velferðar- og sjúkrahúsþjónustu. Það er ekki almennilega skýrt hvernig það verði fjármagnað og hvernig það helst innan þess útgjaldaramma sem að er settur fram í fjármálastefnunni.“