Stefán Eiríksson útvarpsstjóri segist ekki hafa sótt um sérstaka undanþágu hjá heilbrigðisráðuneytinu fyrir afhendingu Íslensku bókmenntaverðlaunanna á Bessastöðum á þriðjudagskvöld. Hins vegar hafi áður verið sótt um almenna undanþágu fyrir starfsemi Rúv til þess að geta sent út viðburði.
„Það gengur erfiðlega að senda út stærri viðburði í tíu manna samkomutakmörkunum. Við höfum sótt um slíka undanþágu þegar þörf hefur verið á því,“ segir Stefán í samtali við Morgunblaðið.
Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær sagði Sif Gunnarsdóttir forsetaritari að Rúv væri með undanþágu frá almennum sóttvarnareglum og því hefðu fleiri en tíu mátt koma saman við afhendingu verðlaunanna. Að sögn Stefáns gilda sömu reglur um útsendingar og sviðslistir:
„Það er langt síðan það lá fyrir frá ráðuneytinu að reglurnar sem gilda um sviðslistir gilda líka um útsendingar og framleiðslu á sjónvarpi og kvikmyndum og slíku.“