Sigríður Dögg Aradóttir, sem gjarnan er þekkt sem Sigga Dögg, kynfræðingur og Hanna Björg Vilhjálmsdóttir kynjafræðikennari tókust á í Kastljósi kvöldsins. Sakaði Hanna Siggu Dögg meðal annars um að vera á „klámvæðingar línunni“ og að „normalísera ofbeldishegðun“.
Hanna ásamt Maríu Hjálmtýsdóttur kynjafræðikennara beindu spjótum sínum að Siggu Dögg í aðsendri grein á Vísi í gær.
Í greininni gagnrýndu Hanna og María harðlega að kyrkingar væru kenndar í skólum landsins.
Í Kastljósi sagði Hanna að með því að kenna kyrkingar væri verið að gangast við ofbeldismenningu og að það væri fráleitt að það væri innan skólakerfisins.
„Við eigum að gera nemendur í stakk búna til þess að finna sína kynverund með því að gera þau meðvituð um alla þá skaðlegu ofbeldismenningu sem er allt í kringum þau,“ sagði Hanna.
Sigga Dögg sagðist ekki kenna kyrkingar í kynfræðslu heldur hvernig skuli virða mörk og fá samþykki einstaklinga.
Hanna sagði þá að samþykki og mörk væru mjög flókin fyrirbæri sem erfitt væri að ræða í tveggja tíma fræðslu. Þá benti Sigga Dögg á að Hanna hafi aldrei setið kynfræðslutíma hjá henni.
Sigga Dögg sagðist hafa talað örsjaldan um kyrkingar í kynfræðslu ungmenna og það hafi verið vegna hversu stórt málið var í dægurmenningu.
„Ef við sendum ungmennunum einu sinni skilaboð frá aðila sem þau taka mark á um að það sé hægt að kyrkja á öruggan hátt, þá erum við að normalísera ofbeldishegðun,“ sagði Hanna.
Hanna og Sigga Dögg voru þó sammála um að auka þyrfti kynjafræðslu ungmenna til muna.