Veðurfar ársins 2021 var hagstætt, tíð var góð og illviðri fátíð. Hiti var rétt yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og það var tiltölulega þurrt um land allt. Þetta kemur fram í yfirliti Veðurstofunnar um tíðarfar ársins 2021, sem stofnunin birti á dögunum.
Það skiptast svo sannarlega á skin og skúrir í veðrinu hér á landi. Þannig var árið 2020 illviðrasamt, meðalvindhraði var óvenjuhár og óveðursdagar margir. Aftur á móti var árið 2019 fremur hlýtt og tíð hagstæð.
Fram kemur í tíðarfarsyfirliti Veðurstofunnar að sumarið 2021 var óvenjuhlýtt, sólríkt og þurrt á Norður- og Austurlandi. Víða var sumarið það hlýjasta frá upphafi mælinga í þessum landshlutum og allmörg hitamet voru slegin. Þessi miklu hlýindi voru stærstu tíðindi veðurársins 2021. Mánaðarmeðalhiti fór m.a. yfir 14 stig á nokkrum veðurstöðvum sl. sumar en meðalhiti eins mánaðar á Íslandi hafði aldrei áður farið yfir 14 stig á nokkurri stöð.
Vorið og langt fram í júní var kalt, þurrt og sólríkt og gróður fór seint af stað. Við tóku óvenjuleg og nánast óslitin hlýindi á Norður- og Austurlandi sem stóðu fram í byrjun september. Sumarið var það hlýjasta frá upphafi mælinga, m.a. á Akureyri, Egilsstöðum, Dalatanga og á Grímsstöðum á Fjöllum. Dagar þegar hámarkshiti mældist 20 stig eða meira einhvers staðar á landinu hafa aldrei verið fleiri. Á meðan var þungbúnara og tiltölulega svalara suðvestanlands, en þó tilltölulega þurrt.
Úrkomusamara varð svo þegar leið á árið. September og október voru blautir á Norður- og Austurlandi og september og nóvember voru úrkomusamir suðvestan- og vestanlands. Mikið rigningarveður gerði á norðaustanverðu landinu í byrjun október, þá sérstaklega á Tröllaskaga og í Kinnarfjöllum. Miklar skriður féllu í Kinn og Útkinn. Desember var hægviðrasamur og tiltölulega snjóléttur um land allt.
Meðalhiti í Reykjavík var 5,4 stig í fyrra og er það 0,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en jafnt meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 4,7 stig, 0,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri var meðalhitinn 4,6 stig sem er 0,4 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,2 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á landsvísu var hitinn 0,2 stigum yfir meðallagi 1991 til 2020, en 0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára.
Ársúrkoma í Reykjavík mældist 765,3 millimetrar sem er 87% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020, en 82% af meðalúrkomu síðustu tíu ára. Óvenjuþurrt var fram eftir ári í Reykjavík. Heildarúrkoma ársins var óvenjulítil í Reykjavík alveg þar til í september, eða um 65% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. En svo varð úrkomusamara í höfuðborginni þegar leið á árið. Á Akureyri mældist ársúrkoman 636,4 mm, 11% umfram meðallag áranna 1991 til 2020, en rétt undir meðallagi síðustu tíu ára.
Árið var óvenjusnjólétt á suðvestanverðu landinu. Alhvítir dagar ársins í Reykjavík voru aðeins 17, sem er 38 færri en meðaltal áranna 1991 til 2020. Alhvítir dagar hafa aðeins einu sinni verið færri í Reykjavík en það var árið 2010 þegar þeir voru 16. Veturinn 2020 til 2021 (desember til mars) í Reykjavík var sá næstsnjóléttasti frá upphafi mælinga, veturinn 1976 til 1977 var snjóléttari. Jörð varð aldrei alhvít í Reykjavík í janúar. Það hefur aðeins gerst þrisvar áður.
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 1.224,8, sem er 144 stundum færri en í meðalári 1991 til 2020, en 141 stund færri en að meðaltali síðustu tíu ár. Árið var mjög sólríkt á Akureyri. Sólskinsstundirnar mældust 1.291,1 eða 240 fleiri en að meðaltali 1991 til 2020, en 221 stund fleiri en að meðaltali síðustu tíu ár. Árið hefur aðeins einu sinni verið sólríkara á Akureyri, en það var árið 2012.
„Meðalvindhraði hefur verið í meira lagi fyrstu 24 daga mánaðarins, reiknast 7,7 m/s í byggðum landsins. Það er að vísu minna en í hitteðfyrra (2020) þegar meðalvindhraði sömu daga var 8,5 m/s, en það var líka það mesta á öldinni – og var þá sá mesti þessa sömu daga frá 1975 að telja,“ sagði Trausti Jónsson veðurfræðingur á bloggi sínu í vikunni.