„Ég get því miður ekki sagt að þetta komi mér á óvart að það séu einhverjar uppsagnir í geiranum á þessum tímapunkti,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
27 starfsmönnum lúxushótelsins The Reykjavík Edition við Hörpu, sem er rekið er í samtarfi við hótelrisann Marriott, hefur verið sagt upp störfum. Þetta staðfesti Denis Jung, framkvæmdastjóri hótelsins, í samtali við mbl.is í dag. Uppsagnirnar ná til starfsfólks úr öllum deildum.
Jóhannes segir að ljóst sé að sú bylgja kórónuveirufaraldursins sem hefur verið að ganga yfir bæði hérlendis sem og annarsstaðar hafi töluvert áhrif á markaði. Töluvert hafi verið af afbókunum og minna um bókanir inn í næstu mánuði fram að vori en búist var við.
„Það eru mörg fyrirtæki sem voru búin að ráða fólk í nóvember og desember miðað við það sem að þau áttu von á að yrði, það breyttist síðan og þess vegna eru mörg fyrirtæki sem hafa verið með í rauninni of mikla mönnunarstöðu og þá mun minni tekjur að koma inn sem að þau voru búin að búast við að gætu staðið undir þessari mönnun.“
Jóhannes segir fyrirtækin leita allra leiða til að minnka kostnað þar til tekjurnar fari að koma vonandi inn aftur í vor. Spurður hvort að það megi búast við því að fleiri fyrirtæki grípi til sömu aðgerða og lúxushótelið segir hann það ekki vera fráleitt.
„Mér finnst erfitt að átta mig á því, fyrirtækin eru að leita allra leiða til að halda í starfsfólk sem er bæði með þekkingu og reynslu og þeim rekstraraðilum finnst tilhugsunin erfið um að segja kannski sama fólkinu upp aftur.
Það er mjög vond tilfinning fyrir fólk sem er að reka fyrirtæki og er gjarnan margt búið að vera með sama fólkið í vinnu lengi sem vill halda í það og finnst þetta bara mjög erfitt.“
Að sögn Jóhannesar er mikil hjálp í framlengingu viðspyrnustyrkjanna og telur hann að þeir fari eflaust í að aðstoða fyrirtækin í að halda í starfsfólk.
„Fyrirtækin hafa verið að bæta við starfsfólki eins og þau mögulega geta og nú var tilkynning um framlengingu viðspyrnustyrkja fram í mars sem mun sem betur fer hjálpa þeim til þess. Ég hugsa að þeir styrkir munu fyrst og fremst fara í það hjá fyrirtækjum reyna að halda ráðningarsambandi við starfsfólk.“