Vandasamt að verja sjúklinga gegn smiti

Frá Landspítala.
Frá Landspítala. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Landspítala reynist vandasamt að verja inniliggjandi sjúklinga gegn kórónuveirusmitum, sérstaklega í ljósi breyttra reglna um sóttkví, að því er fram kemur á heimasíðu spítalans. „Þá verður einnig áskorun að hafa yfirsýn yfir þá sem eru undanþegnir sóttkví en eru sannarlega útsettir í samfélaginu.“

Í pistli farsóttanefndar á heimasíðu spítalans segir að búast megi við að myndin muni skrast á næstu dögum. 

„Mun farsóttanefnd ásamt rakningarteymi fylgjast náið með þróun mála og grípa til allra mörgulegra aðgerða til að minnka líkur á dreifingu smits innan spítalans.“

Til skoðunar er að skima alla sem koma innkallaðir í aðgerðir og önnur inngrip. 

37 lágu á Landspítala í gær með Covid-19, þar af 25 með virkt smit. Þá voru þrír á gjörgæslu og allir þeir í öndunarvél en enginn þeirra var með virkt smit. Einn sjúklingur var sömuleiðis á hjarta- og lungnavél. 

221 starfsmaður Landspítala var í einangrun í gær.

Breyttar reglur um sóttkví tóku gildi í gær en nú þurfa þeir sem út­sett­ir eru fyr­ir smit­um utan heim­il­is ein­göngu að fara í smit­gát og börn og ung­ling­ar eru al­gjör­lega und­anþegin regl­um um smit­gát.

Áskorun að ná utan um þá sem eru útsettir utan heimilis

„Farsóttanefnd vinnur nú hörðum höndum að því að skoða nýjar reglur sem tóku gildi á miðnætti. Að svo komnu máli verður engu breytt varðandi sóttkví B1 og C hjá starfsmönnum en áskorun verður að ná utan um þá sem eru útsettir utan heimilis og ættu í raun að vinna í sóttkví B1 eins og aðrir útsettir,“ segir í pistli farsóttanefndar sem birtist í gær.

„Það er ljóst að breyttar reglur um sóttkví í samfélaginu verða mikil áskorun og spítalanum er vandi á höndum að verja inniliggjandi sjúklinga fyrir smiti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert