Sóttvarnaráðstöfunum verður aflétt á um það bil sex til átta vikum.
Frá þessu greindi Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á blaðamannafundi í Safnahúsinu rétt í þessu.
„Við færum ykkur góð tíðindi hér í dag. Við erum að sjá að það eru að verða raunverulegar breytingar í baráttu okkar við faraldurinn,“ sagði forsætisráðherra og benti á að það væri vegna tilkomu Ómíkron-afbrigðisins annars vegar og aðgerða heilbrigðisyfirvalda hins vegar. Þar með talinn væri árangur í bólusetningu landsmanna.
„Við getum verið að horfa afléttingu allra aðgerða um miðjan mars,“ sagði Katrín en bætti við að það þyrfti þó að taka mið af þróun faraldursins og stöðu heilbrigðiskerfisins.
„En ef allt gengur eins og við að sjálfsögðu öll vonum, þá gætum við verið að horfa á ekki bara hækkandi sól um miðjan mars heldur líka eðlilegt samfélag.“
Ný reglugerð heilbrigðisráðherra tekur gildi á miðnætti og felur í sér eftirtaldar breytingar:
Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu segir að ráðherra hafi vikið lítillega frá tillögum sóttvarnalæknis, þ.e. með því að láta nýju reglurnar taka gildi fyrr, lengja afgreiðslutíma veitingastaða um tvær klukkustundir í stað einnar og hækka hámarksfjölda í verslunum.
Tekið er fram að í minnisblaði sóttvarnalæknis til ráðherra leggi hann fram áætlun að afléttingu opinberra sóttvarnaaðgerða, sem hann telji rétt að gera í skrefum.
Meðan á afléttingum standi megi búast við að samfélagssmitum muni fjölga tímabundið, sem geti bæði haft þau áhrif að þeim sem veikist alvarlega fjölgi en jafnframt geti starfsemi margra fyrirtækja raskast vegna veikinda starfsmanna.
Svokallað neyðarástand er sagt geta skapast á mörgum vinnustöðum sem krefjist sérstakra úrræða og fyrirtæki þurfi að vera undir það búin að starfa í einhvern tíma með skertu vinnuafli.
Mikilvægt sé að hafa í huga að faraldrinum ljúki ekki hér á landi fyrr en gott samfélagslegt ónæmi hafi skapast, sem gæti náðst eftir tæpa tvo mánuði.
Skynsamlegt sé að miða við að um miðjan mars verði öllum takmörkunum aflétt, svo fremi sem núverandi forsendur haldi, þ.e. ekki komi upp ný afbrigði veirunnar og aukning verði ekki á alvarlegum veikindum sem valdi of miklu álagi á heilbrigðiskerfið eða of mikil veikindaforföll starfsmanna verði í ýmsum fyrirtækjum sem skapi neyðarástand.
Í tilkynningunni segir að heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnin muni hafa afléttingaráætlunina til hliðsjónar vegna næstu afléttinga. Staðan verði metin reglulega, einkum álag á heilbrigðiskerfið, og brugðist verði við í samræmi.
„Það getur þýtt að ráðist verði fyrr í afléttingar en áætlunin gerir ráð fyrir eða þeim frestað ef forsendur breytast, svo sem vegna nýrra afbrigða veirunnar.“