Andlát: Þórður Tómasson

Þórður Tómasson í Skógasafni.
Þórður Tómasson í Skógasafni. mbl.is/Árni Sæberg

Þórður Tómasson safnvörður í Skógum undir Eyjafjöllum er látinn, 100 ára að aldri. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi síðastliðinn fimmtudag, 27. janúar.  Þórður var fæddur 28. apríl 1921, sonur Tómasar Þórðarsonar, (1886-1976) og Kristínar Magnúsdóttur (1887-1975) bænda í Vallnatúni undir Vestur-Eyjafjöllum. Þórður, sem var var annar í aldursröð fjögurra systkini, hóf um fermingaraldur að safna munum og minjum í nærumhverfi sínum; verkfærum og öðrum gripum úr gamla íslenska bændasamfélaginu sem þá var komið á undanhald.

Eftir utanskólalestur lauk Þórður gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1941. Sneri þá aftur til margvíslegra starfa á heimaslóð. Byggðasafnið í Skógum sett á laggirnar árið 1949, sama ár og starfsemi Héraðsskólans í Skógum hófst. Í nóvember umrætt ár flutti Þórður muni þá sem hann hafði safnað heima í Vallnatúni að Skógum, en fyrsta sýning nýs byggðasafns var í kjallara nýrrar skólabyggingar og var opnuð 1. desember sama ár.

Þórður var safnvörður Byggðasafnsins  í Skógum frá stofnun þess og starfaði þar vel fram á 21. öldina. Var líf og sálin í safninu og starfi þar, leiðsagði gestum sem komu víða frá í veröldinni en Þórður var sjálfmenntaður mæltur á mörg tungumál.  

Fyrsta safnahúsið í Skógum var reist 1954-55 sem fljótt varð of lítið. Í dag eru hús Skógasafns alls fimmtán. Í safninu eru tugir þúsunda muna, sem sýna vel breytingar á verkháttum á Íslandi á 20. öldinni og þróun íslenskar menningar yfir langan tíma. Á síðari áratugum hefur í Skógum verið lögð sérstök áhersla á að safna og sýna minjar sem tengjast samgöngusögu Íslands, svo sem vegagerð, fjarskiptum og fleiru slíku.

Þórðurvar organisti við Ásólfsskálakirkju og síðar við Eyvindarhólakirkju og sat í sóknarnefndum þar. Hann var fulltrúi í sýslunefnd Rangárvallasýslu 1979-89 auk þess að gegna ýmsum trúnaðarstörfum í heimahéraði sínu. Eftir Þórð liggja mörg rit um þjóðfræði og sagnfræði í bókum, ýmsum tímaritum og blöðum.  Þá safnaði hann ýmsum frásögnum um íslenska þjóðhætti m.a. fyrir Þjóðminjasafn Íslands. 

Á aldarafmæli sínu sendi hann frá sér bókina Stóraborg, staður mannlífs og menningar. Þar segir frá Stóruborg undir Eyjafjöllum, en í bæjarhólnum þar sem brimaði á bjargaði Þórður fjölda merkra og fornra muna. Dróg af þeimályktanir um mannlíf, búskaparhætti og menningarsögu.

Árið 1962 stofnuðu Þórður og Jón R. Hjálmarsson saman tímaritið Goðastein og sáu um útgáfu þess til ársins 1986. Á þjóðhátíðardaginn,  17. júní 1997, var Þórður gerður að heiðursdoktor við heimspekideild Háskóla Íslands og árið 2001 var hann útnefndur heiðursborgari Austur-Eyjafjallahrepps. Hlaut jafnframt ýmsar aðrar viðurkenningar

 Þórður var ókvæntur og barnlaus, en hélt lengi heimili í Skógum með Guðrúnu systur sinni og fjölskyldu hennar. Útför Þórðar fer fram í kyrrey, að eigin ósk. Jarðsett verður í kirkjugarðinum í Ásólfsskála undir Vestur-Eyjafjöllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert