Dómurinn yfir Jóhannesi í samræmi við upplegg saksóknara

Dómur í máli Jóhannesar Tryggva Sveinbjörnssonar féll í héraði í …
Dómur í máli Jóhannesar Tryggva Sveinbjörnssonar féll í héraði í dag. Hlaut hann eins árs hegningarauka við fyrri dóm upp á sex ár. mbl.is/Þorsteinn

Niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu á Jóhannesi Tryggva Sveinbjörnssyni er í samræmi við það sem ákæruvaldið lagði upp með að mati saksóknara í málinu. Réttargæslumaður konunnar sem kærði málið segir að hún sé glöð með niðurstöðuna og að ákveðin staðfesting felist í þessari niðurstöðu sem sé það sem margir brotaþolar leitist eftir þegar komi að kynferðisbrotamálum.

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag Jóhannes sekan af því að hafa nauðgað konu á nudd­stofu sinni árið 2012. Þetta er ann­ar dóm­ur­inn sem Jó­hann­es hlýt­ur vegna brota sem þess­ara, en áður hafði hann hlotið sex ára dóm á síðasta ári. Var Jó­hann­esi dæmd­ur hegn­ing­ar­auka upp á 12 mánuði í þetta skiptið og er er heild­ar­dóm­ur hans í báðum mál­un­um því orðinn sjö ár.

Eftir dómsuppsöguna sagði Dagmar Ösp Vésteinsdóttir, settur saksóknari, í samtali við mbl.is að farið hefði verið fram á 18 mánaða refsingu í ljósi þess að hann hefði hlotið 6 ár fyrir fjögur sambærileg mál í fyrri dómnum. Niðurstaðan hafi hins vegar verið 12 mánuði og það sé alveg í samræmi við það sem lagt hafi verið upp með. Steinbergur Finnbogason, verjandi Jóhannesar, lét bóka við dómsuppkvaðninguna að málinu yrði áfrýjað. Dagmar segir að málið fari nú til ríkissaksóknara sem komi til með að endurskoða hvað farið verði fram á fyrir Landsrétti.

Segir dóminn þarfnast skoðunnar hjá Landsrétti

Steinbergur sagði við mbl.is að þetta væru vissulega ákveðin vonbrigði fyrir umbjóðanda sinn. „Það sem ég hef náð að skauta yfir virðist dómurinn ekki byggja á neinu öðru en trúverðugleika vitna sem öll virðast vera tengd brotaþola og að þetta sé mál sem þarfnist einhverrar skoðunar hjá Landsrétti.”

Vaka Dagsdóttir, réttargæslumaður konunnar, sagði að fyrir sitt leyti væri hún glöð að sakfelling hafi fengist. „Fyrir marga brotaþola fellst ákveðin staðfesting í þeirri niðurstöðu og það er kannski það helsta sem brotaþoli leitast eftir í svona máli. Bæturnar eru mjög sambærilegar og í fyrra málinu.“ Var Jóhannes dæmdur til að greiða konunni 1,5 milljónir í bætur auk alls sakarkostnaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert