Nýjar sóttvarnareglur taka gildi á miðnætti, líkt og fram hefur komið, og gilda þær að öllu óbreyttu í þrjár vikur. Staðan verður þó metin reglulega.
í kjölfarið tekur við annað skref í afléttingarátætlun stjórnvalda og töluvert viðbótarstökk í átt að eðlilegu lífi eins og við þekktum það fyrir kórónuveirufaraldurinn. En þá verða meðal annars reglur um einangrun og sóttkví felldar niður með öllu, samkvæmt drögum að afléttingaráætlun sem birtist í minnisblaði sóttvarnalæknis.
Ríkisstjórnin fór að mestu leyti eftir minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis í fyrsta skrefi afléttinga og sagði heilbrigðisráðherra mikilvægt að fylgja ráðum sérfræðinga í þeim efnum.
Heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnin munu hafa afléttingaráætlunina til hliðsjónar vegna næstu afléttinga og verður staðan metin reglulega, einkum álag á heilbrigðiskerfið, og verður brugðist við í samræmi við stöðuna. Það getur þýtt að ráðist verði fyrr í afléttingar en áætlunin gerir ráð fyrir eða þeim frestað ef forsendur breytast, svo sem vegna nýrra afbrigða veirunnar.
Samkvæmt drögum að afléttingaráætlun verður verða töluverðar breytingar aðgerðum þann 24. febrúar næstkomandi, en þá verða almennar fjöldatakmarkanir 200 manns og fjöldatakmarkanir fyrir sitjandi viðburði verða 1.000 manns. Gestum verður skylt að nota andlitsgrímur bæði þegar þeir fara inn og út af viðburðinum og meðan á honum stendur.
Áfram verður almenn grímuskylda þar sem ekki er hægt að viðhafa eins metra nándarreglu.
Sund-, baðstaðir og líkamsræktarstöðvar mega aftur taka við hámarksfjölda gesta en áhersla lögð á eins metra reglu.
Íþróttaæfingar barna og fullorðinna með eða án snertingar innan sem utan ÍSÍ verði heimilar, en hámarksfjöldi í hverju hólfi verður 200 manns. Þá verða íþróttakeppnir barna og fullorðinna heimilar með 1.000 áhorfendum í hólfi, en áhorfendum skylt að nota grímur.
Veitingastaðir, skemmtistaðir, krár og spilasalir mega frá og með 24. febrúar hafa opið til miðnættis en gestir þurfa að vera farnir út fyrir klukkan eitt. Á veitingastöðum verður hámarksfjöldi gesta í rými 200 og aðeins afgreitt í sæti.
Áfram verður hvatt til heimavinnu þar til öllum sóttvarnaaðgerðum verður aflétt þann 14. mars næstkomandi.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að ef faraldurinn þróaðist með jákvæðum hætti næstu vikur og allt gengi að óskum, þá væri hægt að aflétta fyrr en áætlun gerir ráð fyrir.
Þórólfur er þó varfærinn í minnisblaði sínu og segir að stjórnvöld þurfi að haga afléttingum með skynsamlegum hætti svo útbreiðsla veirunnar fari ekki úr böndunum með tilheyrandi fjölgun á veikindum í samfélaginu, sem og alvarlegum veikindum.
„Því þurfa stjórnvöld að vera tilbúin til að breyta sínum áætlum ef þróun faraldursins fer á verri veginn en búist er við,“ segir Þórólfur í minnisblaðinu.