„Einhvern tímann fer þeim veiku að fækka“

Óskar Reykdalsson.
Óskar Reykdalsson. mbl.is/Sigurður Bogi

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir afléttingaáætlun stjórnvalda á takmörkunum vegna kórónuveirunnar leggjast vel í sig. 

Stjórnvöld greindu frá því í dag að stefnt sé að því að aflétta öllum takmörkunum innanlands fyrir 14. mars næstkomandi. Ný reglu­gerð heil­brigðisráðherra tek­ur gildi á miðnætti sem felur meðal annars í sér rýmkun á samkomutakmörkunum, og eins metra reglu. 

„Mér líst bara ágætlega á þetta og ég held að þetta sé góð leið og reikna með að þetta verði okkur öllum til hagsbóta,“ segir Óskar í samtali við mbl.is. 

Spurður hvort að haft hafi verið samráð við Heilsugæsluna við mótun áætlunarinnar segir Óskar;

„Sóttvarnalæknir hefur mikið samráð við marga þar sem hann fer yfir málin. Við erum með reglulega samráðsfundi og ég sit í stýrihóp sem fundar tvisvar í viku. Það eru kannski ekki nákvæmar útfærslur heldur samtal og viðráð.“

Viðbúið að sýnum fækki 

Fram kom á blaðamannafundi stjórnvalda í dag að stefnt sé að því að afnema sóttkví og einangrun í næsta skrefi afléttingar. Óskar segir viðbúið að þá muni verulega létta undir sýnatöku. 

Sýnataka vegna kórónuveirunnar.
Sýnataka vegna kórónuveirunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við reiknum með að þetta fækki sýnum, nema að það verði fleiri veikir. Miðað við þær niðurstöður sem liggja fyrir um útbreiðsluna, hvað þetta er útbreitt, þá held ég að þetta sé skynsamleg niðurstaða,“ segir Óskar. 

Hann segist taka vel í takmarkalaust samfélag fyrir páska;

„Ég held að það hljómi skynsamlegt að því leitinu til að útbreiðslan er það mikil og það verða það margir búnir að fá Covid-19 að það verði færri eftir, einhvern tímann fer þeim veiku að fækka, þó það taki einhvern tíma,“ segir Óskar en Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur varað við því að smitum eigi eftir að fjölga tímabundið með afléttingunum. 

Bólusetningar umtalaðar 

Spurður hvort að inflúensan hafi haft mikil áhrif á starfsemi heilsugæslunnar undanfarið segir Óskar;

„Það eru alltaf margir sem eru veikir en ekki með Covid-19, eins og fjöldi einkennasýna gefur til kynna. Það eru margir með flensueinkenni en ekki með staðfesta Covid-sýkingu, og þá væntanlega er það þá önnur veirusýking þó að við vitum ekki hvaða veira það sé nákvæmlega.“

Óskar bendir þó á að líklegt sé að talsverður fjöldi fólks hafi látið bólusetja sig við inflúensu. 

„Bólusetningar eru umtalaðar og það má alveg vænta þess að áhuginn sé meiri. Það voru keyptir fleiri skammtar í ár en mörg ár á undan,“ segir Óskar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert