Stærstu tíðindin síðan Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar kom til Íslands eru þau að enginn þríbólusettur hefur enn lagst á gjörgæslu, að sögn Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.
„Það eru stærstu tíðindin sem eru grundvöllurinn að því að við getum fullyrt að þetta er vægara afbrigði og bólusetningin virkar. Það endurspeglast í því að við getum slakað á takmörkunum,“ sagði Bjarni að loknum blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í dag þar sem afléttingar vegna kórónuveirunni voru kynntar.
Spurður hvort hann hefði viljað meiri afléttingar núna sagði hann að þegar lagðar eru saman þær miklu breytingar sem hafa verið gerðar á sóttkvíarreglum og afléttingarnar sem taka gildi á miðnætti séum við að sjá algjöran viðsnúning. „Það sem meira er, að í minnisblaði sóttvarnalæknis er það boðað að innan skamms verði mögulegt að aflétta öllum takmörkum. Eins og ég horfi á það ræðst það af framvindunni,“ sagði hann og bætti við að miðað við minnisblað sóttvarnalæknis gætu um 80% þjóðarinnar verið komin með ónæmi fyrir veirunni um miðjan mars.
„Það þýðir að vikurnar framundan geta verið dálítið krefjandi vegna fjölda smita sem eru í gangi og vegna þess að við erum sífellt að læra á það hversu hátt hlutfall smitaðra er að leggjast inn.“
Framlenging á viðspyrnustyrkjum til fyrirtækja hefur verið ákveðin. Bjarni sagði það hafa sýnt sig að viðspyrnustyrkirnir hafi sérstaklega náð til smærri rekstraraðila og einyrkja. Mörg þúsund fyrirtæki hafi stuðst við úrræðið.
Eftir að dregið hafði mjög úr notkun úrræðisins í nóvember taldi ríkisstjórnin að þörfin fyrir þá væri að fjara út „en síðan kemur Ómíkron með öllum sínum látum inn í myndina og hefur haft mikil áhrif á ákveðna starfsemi í landinu“, sagði Bjarni og taldi ríkisstjórnin því sanngjarnt að endurvekja styrkina á meðan nýjar takmarkanir eru enn við lýði.
Spurður út í lagagrundvöllinn fyrir afléttingu í nokkrum skrefum benti Bjarni á álitsgerð Páls Hreinssonar, forseta EFTA-dómstólsins, frá árinu 2020 og sagði það ofboðslega mikið vandaverk að feta meðalhófið í aðgerðum stjórnvalda. Mikil reynsla hafi skapast á undanförnum tveimur árum.
„Lagagrunnurinn er sá að eftir sem áður er líf og heilsu fólks upp að einhverju marki ógnað með veirunni. Við erum með einstaklinga á gjörgæslu en samhliða því að við sjáum að nýja afbrigðið er ekki eins skæð veira og á meðan þetta hjarðónæmi er að byggjast upp, finnst mér gott meðalhóf í því að boða það að við munum í jöfnum skrefum vinda ofan af öllum aðgerðum,“ útskýrði Bjarni.
„Í mínum huga er það hins vegar ljóst að ef aðstæður halda áfram að þróast með þessum hætti að enginn leggst inn á gjörgæslu með Ómíkron og álagið á spítalann fer minnkandi þá gæti verið hægt að halda því fram að lögin kölluðu á hraðari afléttingaáætlun en það verður að metast á komandi vikum,“ bætti hann við.
Hvað varðar mögulega skaðabótaskyldu ríkisins vegna sóttvarnaaðgerða nefndi Bjarni að frá upphafi hafi stjórnvöld sagst ætla að standa með almenningi.
„Þarna eru að vegast á annars vegar viðleitni stjórnvalda til að takmarka skaðann fyrir efnahagslífið og rekstraraðila og hins vegar skylda þessara aðila til þess að takmarka sjálfir sitt tjón. Það verður að hafa í huga sömuleiðis að stjórnvöld geta ekki borið ábyrgð á því að halda öllum skaðlausum frá faraldrinum. Stjórnvöld hafa skyldu til þess að verja líf og heilsu fólks og við höfum með góðum árangri náð að styðja við rekstraraðila. Hvort það hafi verið gert nákvæmlega í samræmi við það tjón sem varð af sóttvarnaráðstöfunum í hverju og einu tilviki er eiginlega spurning sem ekki er hægt að svara fyrirfram,“ sagði ráðherrann.
Hann nefndi að án stuðningsaðgerða telji hann augljóst að vafalítið hafi skapast bótaréttur gagnvart stjórnvöldum, til dæmis þegar atvinnustarfsemi hafi verið lokað í þágu almannahagsmuna.