Vegna bilunarinnar í Nesjavallavirkjun þarf að grípa til frekari lokanna á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu.
Lokað var fyrir heitt vatn í nokkrum hverfum í Kópavogi og Garðabæ fyrr í dag. Þeirri lokun lýkur kl. 18:00.
Lokað verður fyrir heitt vatn í eftirfarandi hverfum, frá klukkan 17:00.
Í Reykjavík: Selás, Norðlingaholt og Vatnsendi.
Í Kópavogi: Salir og efri Lindir.
Í Garðabæ: Hnoðraholt, Holtsbúð og Urriðaholt.
Í Hafnarfirði: Setberg, Vellir, Hraun, Ásland, Hvaleyrarholt og Dalsás.
Gert er ráð fyrir að lokunin vari til klukkan 21:00.
„Veðurspá gerir ráð fyrir kuldatíð næstu daga og má því búast við að notkun á heitu vatni verði mikil. Fólk er hvatt til að fara einstaklega sparlega með heita vatnið og hafa glugga lokaða og útidyr ekki opnar lengur en nauðsyn krefur til að tapa ekki varma úr húsum,“ segir í tilkynningu frá Veitum.