Fyrsta skrefið sem stjórnvöld stíga núna í afléttingum á sóttvarnareglum er skynsamlegt, að mati Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis, í ljósi nýlegra breytinga á sóttkvíarreglum, allt annarri stöðu varðandi sýnatökur og getunnar til að hafa yfirlit yfir faraldurinn.
„Það breytir öllum viðmiðunarpunktum sem við erum með og við munum örugglega sjá fækkun á tölunum þó svo að útbreiðslan aukist og við þurfum bara að skoða það,“ sagði Þórólfur við mbl.is að loknum blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í Safnahúsinu.
Hann tók fram að fylgjast þurfi með tveimur atriðum í framhaldinu, annars vegar alvarlegum veikindum og hins vegar fjölda þeirra sem leggst inn á spítala. Sömuleiðis þurfi að fylgjast með veikindum starfsfólks bæði í fyrirtækjum og stofnunum, þar á meðal á hjúkrunarheimilum.
„Munu veikindin vera það mikil að það skapar algjör vandræði í starfsemi þessara fyrirtækja? Við erum nú að sjá að það eru ákveðin vandamál í gangi út af veikindum starfsmanna en vonandi mun það ekki aukast,“ sagði hann.
Spurður sagðist hann að vonum vera ánægður með afléttingarnar sem taka gildi á miðnætti. „Ég er mjög ánægður með að við getum stigið þessi skref sem við erum alltaf, öll að stefna að. Okkur greinir kannski á um hversu hratt á að fara og hvenær á að byrja og hvenær á að enda en við erum öll á sama báti með það að við viljum klára þetta og aflétta eins og við getum. Ég kom með þessar tillögur að við myndum aflétta í nokkrum skrefum og mér sýnist stjórnvöld hafa fallist á það nánast 100%, eða 97%.“
Hversu miklar áhyggjur hefurðu af nýjum afbrigðum veirunnar?
„Það er stóra spurningin, munum við fá önnur afbrigði sem hegða sér allt öðruvísi? Það veit auðvitað enginn. Á meðan faraldurinn er í heiminum einhvers staðar getur það gerst að það komi ný afbrigði en auðvitað vonar maður að þessi útbreiddu smit sem eru í gangi í samfélaginu skapi það gott ónæmi að við verðum varin, annað hvort að öllu eða hluta, fyrir öðrum afbrigðum. Það verður að koma í ljós en Covid er ekki búið. Covid er ennþá í heiminum en þetta er mikill áfangi hjá okkur að ná þessum útbreiddu smitum og fá þannig góða vernd,“ sagði hann.
Þórólfur væntir þess, miðað við núverandi upplýsingar og grófa útreikninga, að hægt verði að sjá fyrir endann á veirunni hérlendis með hjálp góðs hjarðónæmis um miðjan mars eða í lok mars. Ýmislegt getur þó komið upp, að hans mati, þar á meðal smit hjá þeim sem ekki hafa ekki fengið Covid og eru óbólusettir, auk þess sem einstaka fólk getur veikst alvarlega.
Beðinn um að nefna næstu skref sem hann hefur lagt til, vísaði hann í minnisblað sitt en sagði þrjár vikur í það næsta og svo, þremur vikum síðar, verður hægt að aflétta nánast öllu.
„Það verður þá að koma í ljós hvernig það gengur og hvort við getum farið hraðar í þetta og fyrr en mér finnst þróunin verða að skera úr um það.“