Nesjavallavirkjun er úti vegna sprengingar

Nesjavallavirkjun.
Nesjavallavirkjun. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Nesjavallavirkun er úti vegna sprengingar sem varð í íhlutum í tengivirki snemma í morgun með þeim afleiðingum að ekki er hægt að keyra vél 3. Vonast er til að þrjár af fjórum vélum virkjunarinnar verði komnar aftur inn um hádegið.

„Við erum að ná utan um þetta,“ segir Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra ON.

Hún segir óljóst með skemmdirnar og ekki ljóst hversu langan tíma taki að setja aftur inn vél 3. Tæknifólk er á staðnum.

Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra ON.
Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra ON. Ljósmynd/Aðsend

Spurð segir hún sprenginguna ekki hafa beinar afleiðingar fyrir hinn almenna borgara en að skerða þurfi stórnotendur á meðan verið er að koma virkjuninni aftur inn. 

Tilkynning barst vegna sprengingarinnar klukkan 5.50 í morgun og var slökkviliðið sent á vettvang. Enginn slasaðist í óhappinu.

Uppfært kl. 9.56:

Fram kemur í tilkynningu frá ON að sprenging hafi orðið í tengivirki Landsnets á Nesjavöllum með þeim afleiðingum að þremur af fjórum aflvélum Nesjavallavirkjunar sló út.

Engin slys urðu á fólki en slökkvilið var kallað út til að reykræsta og er þeirri vinnu lokið.

Aftengja þurfti fjórðu aflvélina til að starfsfólk Orku náttúrunnar gæti athafnað sig við tengivirkið þar sem sprengingin varð.

Umfang tjónsins er ekki ljóst. ON þarf að skerða afhendingu rafmagns til Norðuráls vegna sprengingarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert