Sólveig Anna býður sig fram til formanns Eflingar

Sólveig Anna Jónsdóttir.
Sólveig Anna Jónsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Listi Eflingarfélaga undir nafninu Baráttulistinn hefur tilkynnt kjörstjórn Eflingar - stéttarfélags um framboð til stjórnar og formanns félagsins. Formannsframbjóðandi Baráttulistans er Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Eflingar.

„Það sem sameinar okkur meira en nokkuð annað er trúin á að umbylta félaginu og gera Eflingu að öflugu vopni í kjarabaráttu láglaunafólks.,“ segir í yfirlýsingu. 

„Breytingar í félaginu okkar á síðustu árum hafa gefið okkur von og sannfæringu um að þetta sé hægt. Skipulögð og einbeitt barátta skilar árangri. Við viljum byggja á þeim grunni og þess vegna viljum við starfa í stjórn Eflingar undir formennsku Sólveigar Önnu Jónsdóttur.“

Fram kemur að allir frambjóðendur Baráttulistans hafi áralanga reynslu af störfum verkafólks á íslenskum vinnumarkaði og af trúnaðarstörfum innan Eflingar.

Kosningar á meðal félagsmanna Eflingar fara fram 15. febrúar. 

Sólveig sagði af sér sem formaður Eflingar á síðasta ári.

Í síðustu viku samþykkti trúnaðarráð Eflingar tillögu uppstillingarnefndar um skipun í trúnaðarstöðurnar sem eru til kjörs í stjórnarkjörinu. Sam­kvæmt til­lög­unni er gert ráð fyr­ir að Ólöf Helga Ad­olfs­dótt­ir, nú­ver­andi vara­formaður, verði formaður.

Áður hafði Guðmundur Jónatan Baldursson, stjórnarmaður í Eflingu, tilkynnt framboð sitt til formanns félagsins. 

Núverandi formaður Eflingar er Agnieszka Ewa Ziól­kowska, sem tók við eftir að Sólveig Anna, sagði af sér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert