Undanfarið hafa ítrekað skapast vandamál í sundlauginni í Laugarskarði Hveragerði þar sem hitastig í lauginni er oft lágt svo loka hefur þurft heitum pottum eða sundlaug. Fella hefur þurft niður skólasund, íþróttaæfingar og jafnvel loka fyrir almenna laugargesti, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
„Okkur hefur fundist þetta mjög bagalegt, því sundlaugin er mikið aðdráttarafl fyrir bæinn og hefur sérstöðu sakir einstakrar staðsetningar,“ segir Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins. Hún hefur látið málið til sín taka eins og fleiri bæjarfulltrúar. Nú liggur fyrir svar menningar- og íþróttafulltrúa bæjarins við fyrirspurn framboðsins Okkar Hveragerði um stöðu mála og hvað verða skuli.
Sundlaugin í Hveragerði var opnuð í júlí á síðasta ári að loknum endurbótum á búningsklefum og fleiru sem tóku rétt tæpt ár. Talið er að fallandi þrýstingur og lækkandi hitastig á gufinni sem kyndir sundlaugarsvæðið sé stór orsakavaldur þeirra vandamála sem að framan er lýst. Með öðrum og skýrari orðum sagt: Trukkið er takmarkað.