„Þetta eru tímamót“

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra á blaðamannafundinum í dag.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagði að á stuttum tíma í embætti hafi hann fengið nokkuð mörg minnisblöð frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni vegna kórónuveirufaraldursins. Nýjasta minnisblaðið væri það jákvæðasta.

Þetta kom fram í máli Willums á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar þar sem afléttingaráætlun hennar vegna faraldursins var kynnt.

Þar kom fram að sóttvarnaaðgerðum verður aflétt á sex til átta vikum en fyrsta skrefið verður tekið á miðnætti þegar fjöldatakmarkanir verða færðar úr 10 í 50.

„Þetta eru tímamót,“ sagði Willum.

Hann sagði að hægt væri að fara í afléttingar í varfærnum skrefum og þær væru metnar hverju sinni út frá stöðunni sem uppi er í samfélaginu.

Willum sagði að mikilvægt væri að skapa fyrirsjáanleika um það hvernig farið verði út úr faraldrinum.

Hann sagði allt benda til þess að heilbrigðiskerfið myndi ráða vel við stöðuna en alvarlegum veikindum hefði fækkað verulega.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði að í morgun hefði verið samþykkt á fundi ríkisstjórnar að framlengja viðspyrnustyrki sem runnu út á síðasta ári.

Með því sé verið að bregðast við þeim skaða sem veitingageiri og listalíf hafi orðið fyrir vegna takmarkana tengdum kórónuveirunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert