Veiran gangi yfir á nokkrum vikum

Már Kristjánsson yfirlæknir á smitsjúkdómadeild.
Már Kristjánsson yfirlæknir á smitsjúkdómadeild. Ljósmynd/Lögreglan

Már Kristjánsson, yf­ir­lækn­ir smit­sjúk­dóma­deild­ar Land­spít­al­ans, vonast til þess að viðfangsefni spítalans verði honum ekki ofviða nú þegar farið verður að aflétta samkomutakmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins í hægum skrefum. Hann býst við auknum fjölda smita samfara tilslökunum.

Ég held að það blasi alveg við að sjúklingum heldur áfram að fjölga eftir því sem tilslakanir eru meiri og það er bara eðlilegt,“ segir Már í samtali við mbl.is en á blaðamannafundi ríkisstjórnarinn í hádeginu var afléttingaráætlun kynnt.

Þar kom fram að sótt­varn­aráðstöf­un­um verður aflétt á um það bil sex til átta vik­um en fyrsta skrefið verður tekið á miðnætti þegar fjölda­tak­mark­an­ir verða færðar úr 10 í 50.

„Vonandi verða viðfangsefnin okkur ekki ofviða, ég vona það innilega, og svo mun þetta ganga um garð á fjórum, sex, átta vikum eitthvað svoleiðis,“ segir Már sem þó bendir á að ómögulegt sé að vera með einhverja spádóma um framhald faraldursins.

Verður ekki mikill munur á okkur og Dönum

Öllum sóttvarnaaðgerðum verður aflétt í Danmörku á þriðjudag en Már telur það betra að haga málum eins og gert verður hér á landi.

„Ég held að það sé alltaf betra ef maður er að fara út í eitthvað sem maður veit ekki nákvæmlega hvernig þróast að fara varlega. Mér finnst það skynsamlegra.“

Már telur þó að þegar skilaboð berist frá yfirvöldum um að hægt sé að slaka á geri fólk það, þó tilslakanir sem taki gildi á miðnætti séu ekki það miklar.

„Fólk vill bara ekki að þetta sé til lengur og það er bara mjög skiljanlegt. Ég held í rauninni að jafnvel þó sóttvarnayfirvöld séu að reyna að sýna skynsemi og ráðdeildarsemi þá er ég ekki viss um að samfélagið fari eftir því. Það kemur í ljós en ég held að það verði kannski enginn eðlismunur á okkur og Dönum,“ segir Már sem vonast til þess að veiran gangi yfir á nokkrum vikum án mikilla skakkafalla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert