Vestfirðir tapi vegna raforkumála

Ísafjörður.
Ísafjörður. mbl.is/Sigurður Bogi

Stjórn Vestfjarðastofu tekur undir áhyggjur sveitarstjórna og atvinnulífs á Vestfjörðum af afleiðingum á takmörkunum á sölu á skerðanlegri orku. Stjórn Vestfjarðarstofu kallar eftir að stjórnvöld og Landsvirkjun tryggi að kostnaður vegna þessarar stöðu falli ekki aðeins á íbúa og atvinnulíf á Vestfjörðum.

Þetta kemur fram í bókun sem samþykkt var á fundi stjórnar Vestfjarðarstofu sl. miðvikudag. 

Eins lýsir stjórn Vestfjarðastofu áhyggjum af áhrifum þessarar stöðu á rekstur og fjárfestingargetu Orkubús Vestfjarða, m.a seinkunum í verkefnum er varðar þrífösun rafmagns og undirbúningi nýrrar orkuvinnslu s.s. vatnsafls og jarðhita.

„Stjórn Vestfjarðastofu bendir á að sú staða sem upp er kominn hafi verið fyrirsjáanleg og er enn ein birtingarmynd af þeirri vöntun sem er á stefnumarkandi ákvörðunum stjórnvalda í orkumálum á Vestfjörðum,“ segir í bókuninni. 

Stjórn Vestfjarðastofu vísar í bókuninni til ályktunar Fjórðungsþinga Vestfirðinga og nú síðast 66. Fjórðungsþings um orkumál. Þar er bent á að fjöldi skýrslna um greiningu á stöðu og tillögur að úrbótum í málaflokknum liggi fyrir sem stjórnvöld geti nýtt sér til að taka nauðsynlegar ákvarðanir. „Hér blasa við ákvarðanir um undirbúning að styrkingu flutningskerfis raforku innan  Vestfjarða og bættra tenginga við aðra landshluta og ákvarðanir varðandi undirbúning vatnsaflsvirkjana og vindorkuvirkjana innan Vestfjarða,“ segir í bókuninni þar sem segir enn fremur;

„Að óbreyttu tapa Vestfirðir á hverjum degi af nýjum tækifærum og þeim ávinningi sem ella væri til staðar ef Vestfirðir væru í samkeppnishæfri stöðu miðað við aðra landshluta í raforkumálum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert