Vinnumarkaður nær fyrri styrk eftir skakkaföll

Landsbankinn.
Landsbankinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áætlað er að um 208.900 manns hafi verið á vinnumarkaði í desember 2021, sem jafngildir 78% atvinnuþátttöku. Af þeim voru um 199.700 starfandi og um 9.200 atvinnulausir og í atvinnuleit, eða um 4,4% af vinnuaflinu.

Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans, sem vitnar í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands.

Starfandi fólki fjölgaði um 11.800 milli ára í desember og atvinnulausum fækkaði um 4.700 á sama tíma. Hlutfall starfandi var 74,6% í desember og hækkaði um 3 prósentustig frá desember 2020. 

Atvinnuþátttaka hefur aukist á þessu ári og var 78,0% í desember sem er einu prósentustigi meira en í desember árið áður. Sé miðað við 12 mánaða hlaupandi meðaltal var atvinnuþátttaka mest um mitt ár 2017 þegar hún fór hún upp í 82%. Samsvarandi tala nú er 78,8% og hefur atvinnuþátttaka aukist nokkuð stöðugt síðasta ár á þennan mælikvarða.

Atvinnuleysi, samkvæmt mælingum Hagstofunnar, var 4,4% í desember sem er 2,5 prósentustigum lægra en á sama tíma í fyrra. Almennt atvinnuleysi skráð hjá Vinnumálastofnun var hins vegar 4,9% og hafði minnkað um 5,8 prósentustig milli ára.

Vinnutími hefur styst töluvert á undanförnum misserum. Venjulegur vikulegur vinnutími var þannig 0,4 stundum styttri í desember síðastliðnum en í desember 2020. Sveiflur eru miklar í vinnutíma milli mánaða. Sé horft til 12 mánaða hlaupandi meðaltals er vinnutími nú rúmlega klukkustund styttri en hann var í upphafi ársins 2020. Áherslur í kjarasamningum um styttingu vinnutíma koma þannig greinilega í ljós í vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar, segir í Hagsjánni.

„Tölur úr vinnumarkaðskönnuninni síðustu mánuði sýna ótvírætt að vinnumarkaðurinn er óðum að ná fyrri styrk. Þrátt fyrir endurtekin skakkaföll í baráttunni við faraldurinn hefur þróunin á vinnumarkaði verið jákvæð. Þannig hefur t.d. komið í ljós að ný ráðningarsambönd sem byggðu á ráðningarstyrkjum hafa haldið nokkuð vel þrátt fyrir truflanir vegna faraldursins,“ segir einnig í Hagsjánni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert