Urður Egilsdóttir
„Ég var í gær og alveg langt fram á nótt að svara póstum,“ segir Margrét Erla Maack, giggari og fjöllistagyðja, í samtali við mbl.is um bókanir hjá henni næstu mánuði í skemmtanir eftir að stjórnvöld kynntu afléttingaráætlun sína í gær.
Hún segir að mikið hafi safnast upp eftir að takmarkanir voru hertar í lok síðasta árs.
„Þetta eru allt svona brjálæðislega skemmtileg gigg,“ segir Margrét og bætir við að um sé að ræða lítil gigg þar sem fyrirtækin þori ekki enn að bóka stórar samkomur.
„Það er ógeðslega skemmtilegt að sjá hvað fólk er orðið þyrst. En málið er að alltaf þegar ég segi að stelpan sé orðin uppseld þá framlengjast alltaf samkomutakmarkanir,“ segir hún og hlær. „Ég er því að vona að ég hafi ekki eyðilagt þetta í þetta sinn.“
Margrét segir að eina sem hún hafi áhyggjur af er að hún hefur ekki enn sýkst af kórónuveirunni. „Það er það eina sem ég hef áhyggjur af þegar að svona raðast upp.“
Hvílíkur hasar í ímeilum í gær. Ég er nánast búin að fylla föstudags- og laugardagskvöldin mín út júní! Takk Víðir. Og hin. pic.twitter.com/i0PKrSH2wn
— Margrét Erla Maack (@mokkilitli) January 29, 2022