Brjóstagjafirnar voru einu hvíldarstundirnar

Önnur prentun af bók Ragnheiðar Jónsdóttur er komin út.
Önnur prentun af bók Ragnheiðar Jónsdóttur er komin út. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki er algengt að hálfnírætt fólk og þaðan af eldra skrifi og gefi út fyrstu bók sína. Það gerði Ragnheiður Jónsdóttir, kennari og bókasafnsfræðingur með meiru, fyrir jólin og önnur prentun af bókinni Ég átti flík sem hét klukka kom í bókabúðir í vikunni. „Ég ákvað að skrifa hana vegna þess að ég vildi ekki að minningar fólksins hyrfu alveg.“

Í myndskreyttri bókinni greinir Ragnheiður frá búskaparháttum í Miðfirði á liðinni öld, áður en tæknin ruddi sér til rúms. Hún fæddist og ólst upp á Svertingsstöðum, yngst ellefu systkina, en foreldrar hennar voru Jón Eiríksson og Hólmfríður Bjarnadóttir. Hún varpar ljósi á æskuár þeirra í mikilli fátækt og getur þess meðal annars að þegar faðir hennar var á fermingaraldri þurfti hann vegna veikinda og fjarveru foreldra að hirða einn síns liðs féð um veturinn, sem var harður og snjóþungur, og því tvísýnt hvort heyið nægði. Hann bar ábyrgð á lífsframfæri fjölskyldunnar og kvíðinn og álagið, sem hann varð fyrir á fermingarárinu sínu, markaði hann eflaust til lífstíðar. „Hann sinnti skepnum vel og var afar fjárglöggur,“ segir hún.

Góðmennska og jafnlyndi

Hólmfríður, móðir Ragnheiðar, unni sér aldrei hvíldar. „Brjóstagjafirnar voru mínar einu hvíldarstundir,“ hefur Ragnheiður eftir henni og getur þess að í bréfum móður sinnar komi fram að skæðar pestir, sem hafi jafnvel dregið börn í sveitinni til dauða, hafi ekki náð til þeirra. „Hún var alltaf að og lagði mikla áherslu á hreinlæti. Ég var ekki há í loftinu þegar ég hugsaði með mér að ég skyldi aldrei verða húsmóðir í sveit,“ rifjar hún upp og bætir við að gestkvæmt hafi verið á bænum, sérstaklega á sumrin. „Eftirminnilegast er hve auðveldlega móðir mín gat alið upp alla þessa krakka, hún þurfti aldrei að refsa neinum heldur fór allt á góðmennskunni. Hún var svo jafnlynd.“

Ragnheiður segir að foreldrar hennar hafi verið ólíkir en góð hjón. Faðir hennar hafi alltaf verið góður við börn en ekki mikil barnagæla fyrr en hann hafi verið orðinn gamall og nær blindur á efri árum þeirra í Álftamýri í Reykjavík. „Krakkarnir í hverfinu áttu hann með húð og hári.“ Hann hafi gengið upp og niður götuna og börn hafi keppst við að leiða hann, kallað hann afa. Hann hafi alltaf verið með brjóstsykur í vasanum og gefið börnunum. „Þetta var yndislegt.“

Einhæft fæði og ýldubragð

Svertingsstaðir voru léleg jörð, „einkum mýrar og melar á þessum tíma“, og lítið að bíta og brenna, að sögn Ragnheiðar. Mest fimm kýr og lengi barátta við sauðfjárveiki. Matargerðin hafi verið við frumstæðar aðstæður í torfbænum og fæðan einhæf, fyrst og fremst saltfiskur, slátur og rúgbrauð. Varla hafi ferskan fisk verið að fá og Húnaflói engin matarkista eftir að Bretar hafi „skafið upp allt líf með togurum sínum áratugum saman“. Því hafi „nýr“ fiskur verið sem himnasending, jafnvel þótt ýldubragð hafi verið af honum og komið í hann maurildi. „Kaupfélagið átti sjaldan almennilegar kartöflur til sölu, þær voru eiginlega bara úrgangur.“

Ragnheiður segir vinnuna með móður sinni hafa verið mikla reynslu, að hafa lært til verka, að hugsa um skepnur og stjórna heimili. Systkinin hafi öll fengið framhaldsmenntun umfram skyldu og hugur sinn hafi snemma hneigst til kennslu. Hún kenndi í Hlíðaskóla og Hafralækjarskóla en síðast var hún bókasafnskennari í Melaskóla. „Það er ómetanlegt að hafa alist upp í svona stórum systkinahópi. Við vorum alltaf góðir vinir og sterk tengsl á milli okkar.“ Ragnheiður og Ólafur eru ein þeirra á lífi en Hólmfríður og Jón eiga 243 afkomendur.

Fjölbreyttur starfsvettvangur

Ragnheiður og Ingimar Erlendur Sigurðsson, fyrrverandi maður hennar, eiga fjóra dætur. Hún sinnti ýmsum störfum með fullri kennslu eins og til dæmis barnauppeldi, hótelrekstri, landvörslu og matseld í fjallaferðum á sumrin, uppsetningu leikrita nemenda og yfirlestri handrita ýmissa höfunda. Frá 1973 hefur hún farið í margar ferðir til útlanda. „Mér fannst alltaf gaman að læra og hafði mikla ánægju af útivist og ferðalögum,“ segir hún og bætir við að nú glími hún við parkinson-sjúkdóminn og sé því ekki á ferðinni sem fyrr.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert