Ferðaþjónustan mögulega of löskuð

Búist er við töluverðum straumi fólks hingað til lands í …
Búist er við töluverðum straumi fólks hingað til lands í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sú hætta er fyrir hendi að þegar ferðamenn fara að streyma aftur til landsins með vorinu, þá verði ferðaþjónustan of löskuð til að taka á móti þeim. Staðan núna er sú að stór hluti fyrirtækjanna hefur ekki nægar tekjur til að halda starfsfólki, hvað þá að ráða fólk inn til að undirbúa ferðasumarið eða stunda markaðssetningu.

Þetta segir í yfirlýsingu og áskorun tíu stjórnenda í ferðaþjónustu sem hafa áhyggjur af því að ferðaþjónustunni blæði út núna á síðustu metrum sóttvarnaaðgerða vegna kórónuveirufaraldursins en spár gera ráð fyrir töluverðri fjölgun ferðamanna frá síðasta ári.

Stjórnendurnir hafa áhyggjur af því að fólkið sem kemur muni ekki fá þá þjónustu sem það þarf og vill vegna þess að starfsfólk vantar. Enn fremur gagnist viðspyrnustyrkir meðalstórum og stærri fyrirtækjum í ferðaþjónstu lítið.

Til mikils að vinna að tryggja öfluga ferðaþjónustu

Óvissan og sveiflurnar í ferðaþjónustunni hafa gert það að verkum að fjöldinn allur af reyndu og öflugu starfsfólki er hætt fyrir fullt og allt. Öðrum hefur verið hægt að halda, þrátt fyrir sveiflurnar, með fjölbreyttum úrræðum sem ríkissjóður hefur kostað. En nú hafa allir slíkir styrkir runnið sitt skeið. Janúar má að heita dauður tekjulega séð í ferðaþjónustunni, með 65-70% tekjufalli. Útlitið er ekki bjartara a.m.k. næstu tvo mánuði. Ekkert fyrirtæki getur staðið undir fastakostnaði og launakostnaði nema hafa tekjur,“ segir í yfirlýsingunni.

Versta sem gæti gerst í aðdraganda sumarsins sé að fyrirtæki segi fólki upp einu sinni enn í þeirri von að það fáiast aftur til starfi þegar birti yfir, eða nýtt og óreynt fólk taki við.

Hætt er við því að tekjur þjóðarbúsins af komu ferðamanna verði minni en ella. Það er því til mikils að vinna að tryggja að ferðaþjónustan geti mætt þörfum ferðafólksins með góðri þjónustu og tryggt áframhaldandi gott orðspor fyrir Ísland sem áfangastað,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar segir að besta leiðin sé að framlengja ráðningastyrki til að halda samfellu í störfum. Skorað er á stjórnvöld að bregðast við nú þegar en með litlar eða engar tekjur geti mörg fyrirtæki ekki staðið undir ráðningarsambandi, greitt laun, launatengd gjöld, rekstur húsnæðis og tækja, afborganir lána og annað sem fylgi rekstri.

Undir yfirlýsinguna skrifa eftirtaldir:

Davíð Torfi Ólafsson, Íslandshótel

Gunnar Rafn Birgisson Ferðaskrifstofan Atlantik

Hallgrímur Lárusson, Snæland Travel

Helena Vignisdóttir, Hótel Varmaland

Hörður Guðmundsson, Flugfélagið Ernir

Kristófer Oliversson, formaður FHG - Fyrirtækja í hótel og gistiþjónustu

Rannveig Grétarsdóttir, Elding Hvalaskoðun

Steinþór Jónsson, Hótel Keflavík

Þórir Garðarsson, Gray Line Iceland

Þórunn Reynisdóttir, Ferðaskrifstofa Ísland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert