„Ég hef alltaf haft dálæti á því að teikna ljótt fólk,“ svarar Björn Önundarson, nýr skopmyndateiknari Sunnudagsblað Morgunblaðsins hlæjandi, spurður hvort hann eigi sér uppáhaldsviðfangsefni.
„Sérstaklega gamla krumpaða karla. Það er miklu einfaldara að eiga við þá en unga fólk sem lítur vel út. Ég er alls ekki að segja að hann sé ljótur en Kári Stefánsson er algjör draumur. Ég meina, maðurinn lítur út eins teiknimynd. Menn með svona sterk karaktereinkenni eru algjör veisla fyrir okkur teiknarana. Í því sambandi má líka nefna Vladimír Pútín og Donald Trump. Sigmund teiknaði mikið gamla karla enda sátu þeir nær eingöngu í stjórn á þeim tíma. Það hefur breyst og flóran fjölbreyttari. Sem er meiri áskorun.“
Björn segir skemmtilegt að rýna í karaktereinkenni fólks og ýkja þau, svo sem stórt nef, skarpa höku og þar fram eftir götunum. „Það er samt aldrei markmið að særa neinn, það væri högg fyrir neðan belti, sem maður á á forðast í svona myndum.“
Þrátt fyrir ungan aldur, hann verður 26 ára á árinu, hefur Björn talsverða reynslu af skopmyndagerð. Hann var ekki nema tíu ára, eða þar um bil, þegar hann heillaðist fyrst af myndum Sigmunds heitins, sem áratugum saman teiknaði fyrir Morgunblaðið.
„Þetta var rétt áður en Sigmund hætti hjá Mogganum og ég komst í framhaldinu yfir úrval af myndum hans; skildi ekki brandarana á þeim tíma en fannst myndirnar magnaðar. Það er kannski skrýtið fyrir tíu ára strák en ég hef alltaf verið áhrifagjarn,“ segir Björn hlæjandi og bætir við að myndir Sigmunds lifi enn með honum.
– Skopmyndir í dagblöðum hverfast oftar en ekki um fréttir og málefni líðandi stundar. Fylgistu vel með?
„Já, ég hef alltaf fylgst vel með fréttum og upp úr tvítugu varð ég óvart fréttafíkill. Það á raunar við um allan vinahópinn. Í dag byrja ég alla morgna á því að kveikja á gamla útvarpinu mínu og hlusta á fréttirnar. Alveg eins og pabbi gerði þegar ég var lítill. Í ljósi þess hversu neikvæðar fréttirnar eru gjarnan kann einhverjum að þykja það undarlegt en mér finnst þetta róandi. Ég veit ekki af hverju.“
– Þú munt þá sækja innblástur í fréttir, pólitík og annað?
„Já, við lifum á umbrotatímum og það er verkefni okkar skopmyndateiknara að endurspegla það með einum eða öðrum hætti.“
– Líturðu á skopmyndina sem tæki til að ýta við þínum samtíma?
„Að vissu leyti. Skopteikningar í dagblöðum eru ekki eins áhrifamiklar í dag og þær voru fyrir tíma internetsins en þær geta samt sem áður ýtt við sínum samtíma.“
- Ætlarðu að pota fast?
„Skopmyndin á ekki að vera bitlaus og þægileg afþreying, eins og svo margt í okkar umhverfi. Tilgangurinn er að ýta við og ögra en um leið reyna að vera sniðugur og hugsa um gæðin myndlistarlega. Ég mun leggja minn metnað í það. Sjálfur geri ég ráð fyrir að bíta frekar en vera bitlaus, án þess þó að vera með leiðindi, leiðindanna vegna.“
– Viðbúið er að fólk fari fljótt að mynda sér skoðun á myndum þínum. Óttastu viðtökur?
„Nei, ég er bara spenntur að byrja. Það þýðir ekkert að velta fyrir sér hvernig fólk kemur til með að taka þessu. Maður bara bombar þessu út og tekur svo bara afleiðingunum.“
Nánar er rætt við Björn í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins og fyrsta skopmynd hans birt þar.