Innkaupa- og framkvæmdaráð Reykjavíkurborgar ákvað á síðasta fundi sínum að taka tilboði lægstbjóðanda, Rafal ehf. að upphæð tæpar 75 milljónir króna, í vinnu við uppsetningu lýsingar og viðburðabúnaðar í Laugardalshöll.
Elsti hluti Laugardalshallar hefur verið lokaður sem íþrótta- og viðburðahús síðan 11. nóvember 2020. Þá varð heitavatnsleki sem eyðilagði parketgólfið. Leggja þurfti nýtt parket og sú ákvörðun var tekin að nota tækifærið og setja upp lýsingu sem uppfyllir nútímakröfur við íþróttakeppni og notkun hússins sem fjölnota húss. Verkið hefur dregist von úr viti vegna þess að útboð hafa verið kærð, tilboð voru svo há að þeim var hafnað af borginni eða hvort tveggja. Keppni og æfingar hafa ekki verið í húsinu vel á annað ár sem hefur verið bagalegt fyrir þau íþróttafélög og landslið sem þar hafa æft og keppt.
Þetta nýjasta útboð var það síðasta og því ekkert sem stendur í vegi fyrir því að klára verkið. „Þetta er mikil hamingja fyrir alla,“ segir Birgir Bárðarson, framkvæmdastjóri Íþrótta- og sýningarhallarinnar ehf., sem rekur Laugardalshöllina. Birgir segir að verktakinn sé byrjaður að koma með tæki og tól inn í húsið og stefni að því að hefja framkvæmdir 7. febrúar. Verktími er áætlaður til 15. maí. Skrúfa á upphengibúnaðinn upp í kúluþakið og nota þarf stórar og þungar vinnulyftur, enda lofthæðin 22 metrar.
Að þessu verki loknu verður hafist handa við að leggja parketið, sem löngu er búið að kaupa. Það verk mun taka þrjá mánuði. „Við verðum komnir í gang lok ágúst eða byrjun september ef allar áætlanir standast,“ segir Birgir.
Sem kunnugt er hefur Höllin verið notuð til fjöldabólusetninga vegna kórónuveirunnar. Birgir segir að vonandi verði áfram hægt að nota húsið fyrir bólusetningar þótt unnið sé að viðgerðum á elstu Höllinni. Húsakynni Laugardalshallarinnar séu alls 21 þúsund fermetrar og hægt að nota t.d. frjálsíþróttahöllina og anddyrið.