Margt fullorðið fólk muni áfram einangra sig

Inga Sæland.
Inga Sæland. mbl.is/Kristinn Magnússon

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, telur afléttingaáætlun stjórnvalda vera skynsamlega og segist vera hlynnt því að aflétt sé í nokkrum skrefum. Þó segist hún gjarnan vilja vita meira um mælingar og að fylgst verði áfram með fjölda þeirra sem greinast.

„Við verðum einhversstaðar að byrja og mér finnst vera stigið skynsamlega niður. Mér finnst við eiga að stíga varfærnislega til jarðar,“ segir Inga í samtali við mbl.is.

„Allt er best með forsjá og við erum með tveggja ára reynslu í glímunni við þennan faraldur, þannig að ég er alveg hlynnt því að við reynum að taka þetta svona í skrefum, skynsamlegum skrefum.“

Inga segir þó að þrátt fyrir að hún telji afléttingarnar vera rétta skrefið muni ávallt einhver hópur í samfélaginu vera smeykur og halda áfram að einangra sig.

„Ég býst við að mjög mikið af fullorðnu fólki, eldra fólki sem að hefur verið að einangra sig fram að þessu og varla þorað að fara út í búð, ég býst við að það haldi áfram að einangra sig.

Það mun alltaf einhver hópur í samfélaginu gera það, en ég tel að það sé ekki eins mikil ástæða núna og áður vegna þess að ef að marka má það sem sagt er um þetta nýja afbrigði, Ómíkron, að þá eigum við bara endilega að sjá hvað gerist með því að aflétta svona.“

Vill að áfram verði vel fylgst með

Inga segir hins vegar að hún hefði gjarnarn viljað vita meira um mælingar og fjölda þeirra smita sem greinast. Mikilvægt sé að fylgst verði áfram vel með því.

„Það eina sem mér finnst óþægilegt er að nú þarf ekki lengur t.d. í skólum að láta vita að viðkomandi er með Covid eða neitt slíkt. Þú gerir þér enga grein fyrir því hvort að þú ert innan um fullt af fólki með Covid, vegna þess að það er búið að fella allar þær skylduupplýsingar úr gildi.“

Að öðru leyti segist hún ánægð með að byrjað sé að aflétta sóttvarnaraðgerðum og að stigið sé varfærnislega til jarðar. Það sé mikilvægt að ekki of margir veikjist í einu svo að ekki sé misst of margt starfsfólk frá vinnu, t.d. heilbrigðisstarfsfólk.

„Af því að það er náttúrulega miklu meira en Covid í samfélaginu. Við höldum áfram að vera með alla aðra sjúkdóma og þörf fyrir spítalainnlagnir og læknaþjónustu þannig að þess vegna er nauðsynlegt að gera þetta varfærnislega.

Það er ekkert sem að segir það að við getum ekki spornað við ef að allt fer að fara á annan veg en við vonumst til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert