Hætt er að selja nærsýnisgleraugu í verslunum Flying Tiger Copenhagen á Íslandi. Þarna ræðir um svonefnd mínus-gleraugu, eins og margir grípa til við lestur, handavinnu og slíkt. „Nú er verið að herða Evrópureglur á þann hátt að aðeins megi selja gleraugu þessarar gerðar í sérverslunum og heilbrigðisstarfsfólk þurfi að vera nærri í ferlinu,“ sagði Arnar Þór Óskarsson framkvæmdastjóri við Morgunblaðið. Verslanir fyrirtækisins eru alls fimm; þrjár á höfuðborgarsvæðinu, ein á Akureyri og sú fimmta á Selfossi.
„Við verðum áfram með gleraugu við fjarsýni, en nærsýnisgleraugu bjóðast okkur ekki lengur hjá birgjum. Raunar eru gleraugu vara sem alltaf hefur verið stór í sölu hjá okkur og verður væntanlega áfram. Við áttum til talsvert af nærsýnisgleraugum, lager sem nú er uppurinn svo nú þarf fólk að leita annað,“ segir Arnar Þór.