Útför Bjarna Haraldssonar, kaupmanns á Sauðárkróki og heiðursborgara Skagafjarðar, fór fram frá Sauðárkrókskirkju í gær. Að athöfn lokinni ók líkfylgdin frá kirkjunni norður Aðalgötu og líkbíllinn staðnæmdist um stund fyrir utan búðina hans Bjarna, sem faðir hans, Haraldur Júlíusson, stofnaði árið 1919. Bjarni starfaði í versluninni frá unga aldri og rak hana einn frá 1970 og fram undir það síðasta. Bjarni lést 17. janúar sl., á 92. aldursári.
Með ökuferðinni í gær vildi fjölskylda Bjarna gefa honum færi á að kasta hinstu kveðju á búðina og fá lengri ökuferð í leiðinni um útbæinn, en Bjarni var mikill bílaáhugamaður og starfaði sem bílstjóri í áratugi. Frá búðinni var ekinn rúnturinn til baka um Aðalgötu og þaðan upp í kirkjugarð á Nöfunum.
Sr. Gísli Gunnarsson í Glaumbæ jarðsöng og félagar úr Karlakórnum Heimi sungu, undir stjórn Stefáns R. Gíslasonar. Líkmenn voru ættingjar og vinir Bjarna.