Þörf á stækkun Landakotsskóla

Með stærra húsnæði gæti fjöldi nemenda í alþjóðlegri deild farið …
Með stærra húsnæði gæti fjöldi nemenda í alþjóðlegri deild farið upp í 150. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landakotsskóli hefur vaxið mikið og eflst á seinustu árum og er nú orðin brýn þörf á viðbótarhúsnæði vegna fjölgunar nemenda. Nemendum við alþjóðlegu deildina, sem tók til starfa árið 2016, hefur fjölgað úr 24 nemendum í upphafi í rúmlega 100 nemendur. Á átta árum hefur öllum nemendum við Landakotsskóla fjölgað úr 140 nemendum í 320 í almennu grunnskóladeild skólans og í alþjóðlegu deildinni.

Með stækkun gæti fjölgað í alþjóðlegu deildinni í 150

Uppi eru áform um stækkun skólahúsnæðisins og að lokið verði við byggingu nýrrar álmu sem þegar hefur verið samþykkt á deiliskipulagi. Ingibjörg Jóhannsdóttir, skólastjóri Landakotsskóla, segir að með stærra húsnæði gæti fjöldi nemenda í alþjóðlegu deildinni farið upp í 150 nemendur.

„Það er búið að skipuleggja þessa síðustu álmu og búið að samþykkja hana í borgarskipulagi. Við myndum mjög gjarnan vilja reisa hana,“ segir Ingibjörg í samtali við Morgunblaðið. Kostnaður við nýja byggingu skólans er áætlaður 400 milljónir króna.

Nú er svo komið að hvert rými skólans er nýtt til hins ýtrasta við kennslu og aðra starfsemi skólans en með nýrri byggingu verður til rými fyrir fjórar nýjar skólastofur.

Lagt var fram erindi frá Landakotsskóla á fundi borgarráðs síðastliðinn fimmtudag um stuðning Reykjavíkurborgar við alþjóðlegt nám skólans. Fram kemur á minnisblaði Ingibjargar sem fylgdi erindinu til borgarinnar að ýmiss konar tilfærsla og hagræðing hefur nú þegar verið gerð innan skólans til að nýta betur húsnæðið. Þetta hefur meðal annars verið gert með samnýtingu stofa, lítilli viðbyggingu og viðbótarrými sem skólinn hafði ekki til umráða áður. „Við höfum reynt að nýta rýmið eins vel og kostur er á en nú eru eiginlega allir möguleikar uppurnir. Ég er til dæmis hérna í rými sem var einu sinni fataklefi og lítið eldhús,“ segir Ingibjörg í samtali við Morgunblaðið.

Landakotsskóli er sjálfstætt starfandi grunnskóli og er nemendum við skólann kennt frá fimm ára aldri og upp í tíunda bekk. Skólinn hefur verið rekinn sem sjálfseignarstofnun frá árinu 2005 með sjálfstæðri stjórn þar sem sitja fyrrverandi og núverandi foreldrar.

Nánari umfjöllun má lesa í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert