Tilfinningarússibani á toppnum

Sebastian Garcia og Arnar Hauksson stóðu á toppi Aconcagua þann …
Sebastian Garcia og Arnar Hauksson stóðu á toppi Aconcagua þann 23. janúar. Arnar segir tilfinninguna ólýsanlega á toppnum.

„Við erum að jafna okkur eftir að hafa verið þrjár vikur á fjallinu,“ segir listmálarinn Tolli Morthens þegar blaðamaður náði tali af honum og félega hans í myndsímtali til Argentínu. Með honum í för er Arnar Hauksson, húsasmiður og fjallagarpur með meiru. Tolli og Arnar vinna báðir sjálfboðavinnu fyrir Batahús sem nú hefur verið rekið í eitt ár. Þar búa fyrrverandi fangar sem þurfa aðstoð við að koma sér aftur út í lífið.

Ferðin reyndist síður en svo létt og svo fór að Tolli þurfti að játa sig sigraðan í baráttu við sjálfan tindinn, en Arnar fór upp ásamt leiðsögumanninum Sebastian Garcia. Þeir náðu tindi Aconcagua-fjalls fyrir um viku, en það er hæsta fjall í heimi utan Asíu. Tolli grætur það ekki að hafa ekki komist alla leið og tekur því með stóískri ró.

Veðravíti þegar vindur blæs

„Þetta er búið að vera stöðugt juð og það var mikil bið í búðunum í fjallinu. Þar var alltaf kalt og aðbúnaður svona eins og í hörðustu flóttamannabúðum. Þetta tók á en var mjög spennandi samt,“ segir Tolli og segir veðrið ekki hafa verið sem best.

Gríðarlega fallegt var í Andesfjöllunum en erfitt var að bíða …
Gríðarlega fallegt var í Andesfjöllunum en erfitt var að bíða í búðunum í heila viku eftir rétta veðrinu.

„Það lagðist stormur yfir fjallið þegar við komum upp í grunnbúðir. Það kom eiginlega hálfur mánuður þar sem var nær ómögulegt að komast upp, en þarna var mikill kuldi og vindur. Fjallið er ekki tæknilega erfitt að ganga en það er veðravíti þarna uppi þegar blæs og kuldinn getur farið í 25-30 í mínus, sem er með vindkælingu eins og fimmtíu stiga frost. Það eru ekki nema þrjátíu prósent þeirra sem reyna við tindinn sem komast alla leið upp,“ segir Tolli og segir þá hafa verið með afar góðan og reyndan leiðsögumann.

Félagarnir koma heim reynslunni ríkari eftir mikla ævintýraferð.
Félagarnir koma heim reynslunni ríkari eftir mikla ævintýraferð.

„Hann var rammur að afli og með lundafar zen-búddameistara. Hlýr og traustur.“

Mikill andlegur sigur

Svo tekur þú ákvörðun að hætta við síðasta spölinn upp á tindinn. Hvers vegna?

„Ég fann að ég var búinn með mína innistæðu. Ég las það þannig að ég var kominn að þolmörkum og ákvað að draga mig í hlé,“ segir Tolli og segist hafa fundið vel fyrir háfjallaveiki.

Voru þetta mikil vonbrigði?

„Fyrst, en svo verður maður að sætta sig við það sem maður getur ekki breytt. Ég leit á okkur sem eina heild og það skipti svo sem ekki máli fyrir mig að komast ekki upp ef Arnar kæmist upp. Það var rosalegt gleðiefni að hann skyldi toppa, en við tengjum þetta ferðalag við það sem við köllum batagöngu og við vildum sýna að leiðin í átt að bata tekst með einu skrefi í einu. Það er allt hægt,“ segir Tolli og segist hafa tekið æðruleysisbænina á þetta.

Tolli, leiðsögumaðurinn Sebastian og Arnar stilla sér upp fyrir myndatöku …
Tolli, leiðsögumaðurinn Sebastian og Arnar stilla sér upp fyrir myndatöku í stórbrotnu fjalllendinu.

„Ég er 68 ára gamall og er sáttur við minn hlut. Ég er stoltur af mínu framtaki í þessum fjallgarði,“ segir Tolli sem grínast með að hann sé í afneitun yfir hækkandi aldri.

„Ef maður getur á maður að láta vaða. En þegar manni fer að líða líkamlega illa, þá heldur andinn ekki við. Síðasti leggurinn er andleg þrekraun og það var ansi magnað að heyra Arnari lýsa því,“ segir Tolli en Arnar er nú mættur og leggur orð í belg úr hótelherberginu í Buenes Aires.

„Þetta var rosaleg áraun og mikið ferðalag og andlega erfiðara en ég bjóst við. Það er miklu meiri andlegur sigur, en líkamlegur, að komast í gegnum þetta. Þegar við biðum þarna í kuldanum í tjaldinu og allt var frosið, þá segja allar frumur í líkamanum manni að fara niður. Maður spyr sig af hverju maður er að standa í þessu,“ segir Arnar og segist ganga mikið á fjöll heima en auk þess hefur hann gengið á Mont Blanc svo eitthvað sé nefnt.

„Þetta er hæsti tindur sem ég hef farið á,“ segir Arnar en þess má geta að Aconcagua nær tæpum sjö þúsund metrum.

Ólýsanlegt að ná toppnum

Arnar segir þá hafa verið að renna út á tíma að komast upp á topp en þeir Sebastian hafi svo stokkið af stað þegar gluggi opnaðist í veðrinu.

„Við tókum þetta í mjög hraðri atlögu og mun hraðar en venjulega er gert. Við fórum beint úr grunnbúðum í búðir tvö og vorum þar í sex tíma að hvíla og borða. Svo lögðum við af stað klukkan tvö um nóttina á tindinn. Við vorum þá mjög heppnir með veður því það datt í dúnalogn þarna um miðnætti. Við gengum því í logni í búðir þrjú og héldum svo áfram en þá fór veðrið að versna. Þegar við vorum komnir í um 6.500 metra hæð þá kemur maður að garði þar sem verður eins konar trekt í fjallinu. Þar var alveg stöðugur vindur, örugglega 25 metrar á sekúndu og frostið um 25 gráður. Þarna var alveg helkalt að komast í gegn, og tók það einn til einn og hálfan tíma. Þegar ég var kominn þar yfir var ég algjörlega búinn en þá voru þrjú hundruð metrar eftir upp á topp,“ segir Arnar og segist hafa sagt við Sebastian að hann efaðist um að komast lengra.

Arnar segir afar erfitt hafi verið að ganga síðasta spottann …
Arnar segir afar erfitt hafi verið að ganga síðasta spottann upp fjallið en það var ískalt og með vindkælingu var kuldinn um fimmtíu gráður í mínus.

„Hann sagði mér að hvíla mig í tuttugu mínútur og mér leið bara eins og ég væri á síðustu andardráttunum. En eftir um hálftíma fann ég að ég var búinn að endurnýja kraftinn og við tókum svo síðustu þrjú hundruð metrana í áföngum á þremur tímum,“ segir hann, en alls tók gangan upp með hléi í öðrum búðum um þrjátíu tíma.

Hvernig var tilfinningin á toppnum?

Arnar á topnnum og útsýnið alveg magnað. Fjallið er tæpir …
Arnar á topnnum og útsýnið alveg magnað. Fjallið er tæpir sjö þúsund metra hátt.

„Hún var ólýsanleg. Þetta var tilfinningarússíbani og tár á hvarmi. Það var alveg heiðskírt og nánast logn á toppnum og útsýni yfir allan Andesfjallgarðinn,“ segir Arnar og segist hafa staðið um korter, tuttugu mínútur á toppnum áður en þeir lögðu af stað í erfiða niðurferð.

Sumir þurfa fyrsta séns

Tilgangur fararinnar var að safna fé í Sollusjóð sem er sérstakur sjóður fyrir íbúa Batahúss og hugsaður til að standa straum að ýmsum kostnaði fyrir fyrrverandi fanga á leið þeirra út í samfélagið á ný. Fjallakofinn lagði sitt af mörkum og styrkti þá til fararinnar og fyrir það eru þeir þakklátir.

„Batahús hefur verið starfandi í um eitt ár og er fyrir þá sem hafa verið í samskiptum við refsivörslukerfið. Batahús er fyrir þá sem eru að klára afplánun og eru edrú og hafa löngun og vilja til að eignast gott líf í samfélaginu,“ segir Tolli og segir húsið taka átta manns.

„Við erum með góðan kjarna núna, fimm heimilismenn,“ segir Tolli.

„Þetta er fyrir karlmenn en næst ætlum við að setja af stað úrræði fyrir konur, en það verður minna því vöntunin er minni,“ segir Arnar.

Hægt var að heita á þá félaga og segja þeir enn tíma til að leggja málefninu lið, en allar upplýsingar má finna á batagangan.is.

„Við erum ekki hættir og það er enn hægt að leggja þessu lið. Við tökum upp úr hattinum eftir viku og það munar um hverja krónu,“ segir Tolli.

Eiga allir skilið annan séns?

„Alveg hundrað prósent,“ segir Tolli.

„Já og sumir eiga skilið að fá fyrsta séns, af því að þeir hafa aldrei fengið séns. Samfélagið gafst upp á þeim áður en þeir fengu tækifæri. Margir þeirra eru aldir upp við ömurlegar aðstæður,“ segir Arnar.

Nánar er rætt við Tolla og Arnar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert