Tjónið nemur 25 milljónum

Nesjavallavirkjun.
Nesjavallavirkjun. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Spreng­ingin sem varð í íhlutum í tengi­virki Landsnets á Nesja­völl­um í gærmorgun, með þeim af­leiðing­um að þrem­ur af fjór­um afl­vél­um Nesja­valla­virkj­un­ar sló út, er talin hafa valið tjóni upp á um 25 milljónir. Eng­in slys urðu á fólki en slökkvilið var kallað út til að reykræsta.

„Íhluturinn sem bilaði heitir Múffa, sem virkar eins og kló á milli virkjunarinnar og landsnetsins, hún sprakk þannig að það kom reykur og sót,“ segir Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra ON.

„Slökkviliðið reykræsti og svo fóru þrif í gang og það sem við gerðum út af öryggisástæðum var að taka virkjunina alveg út á meðan að það væri fólk að athafna sig þarna.“

Að sögn Berglindar kom tæknifólk frá bæði Orku Náttúrunnar og Landsneti sem fór í að setja vélarnar aftur inn í gær og voru þær komnar inn á netið í kringum þrjúleytið. Nú séu þrjár af fjórum vélum í gangi og svo hefjist viðgerðir í fyrramálið á þeirri vél sem að bilaði.

Full afköst eftir nokkra daga

„Það að skipta þessum hlutum út sem að þarf að skipta út af þessu kostar sirka 25 milljónir á vél, það var vél þrjú sem að bilaði og svo í framhaldinu verða hinar vélarnar skoðaðar líka,“ segir Berglind.

Hún segir það síðan vera næstu skref að skoða hvað sé hægt að gera til þess að þetta komi ekki fyrir aftur.

Gera má ráð fyr­ir að virkj­un­in verði með fulla af­kasta­getu eft­ir sjö til fjórtán daga þegar viðgerð á vél­inni sem er úti er lokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert