Fyrirtækið Qair Iceland ehf. hefur hug á að reisa vindorkugarð í landi Hvamms í Norðurárdal í Borgarfirði. Garðurinn verður austan við Baulu og liggja mörk hans við hringveginn norður í land. Hann er nefndur Múli.
Fyrirtækið hefur kynnt matsáætlun sem er fyrsta stig umhverfismats fyrir verkefnið og gefst almenningi og lögboðnum umsagnaraðilum kostur á að koma athugasemdum á framfæri.
Áformað er að reisa 13-17 vindmyllur í vindorkugarði sem tekur yfir rúmlega 3.500 hektara svæði. Áætluð framleiðslugeta er 78-95 megawött. Vindrafstöðvarnar eru stórar, hver hreyfill með þremur spöðum er 110 til 170 metrar í þvermál og gera má ráð fyrir að spaði í hæstu stöðu nái upp í um 200 metra frá jörðu. Gert er ráð fyrir að vindorkugarðurinn Múli verði byggður upp í einum áfanga.
Vindorkugarðurinn mun ná að hluta yfir Hvammsmúla. Á honum eru aflíðandi hlíðar með birkikjarri. Hringvegurinn liggur meðfram suðurjaðri þróunarsvæðisins. Nokkur bóndabýli og sumarhús eru í jaðri svæðisins, auk fáeinna býla innan svæðis.
Þess má geta að unnið er að umhverfismati fyrir annan vindorkugarð skammt frá Hvammi, á Grjóthálsi sem er hinum megin við dalinn. Sá garður yrði mun minni. Hann er í landi Hafþórsstaða í Norðurárdal og Sigmundarstaða í Þverárhlíð. helgi@mbl.is