Aðflutningurinn sá sjötti mesti frá upphafi

3.900 fleiri erlendir ríkisborgarar komu til landsins en fluttu frá …
3.900 fleiri erlendir ríkisborgarar komu til landsins en fluttu frá landinu og um 770 fleiri íslenskir ríkisborgarar fluttu til landsins en frá því. mbl.is/​Hari

Aðflutningur til landsins í fyrra var sá sjötti mesti á öldinni og þar með frá upphafi. Þannig fluttu hingað tæplega 3.900 fleiri erlendir ríkisborgarar en fluttu þá frá landinu og um 770 fleiri íslenskir ríkisborgarar fluttu til landsins en frá því.

Þetta má lesa úr nýjum tölum Hagstofunnar um búferlaflutninga en þær eru hér sýndar á grafinu.

Aðeins jákvæðari fimm sinnum

Flutningsjöfnuðurinn hefur aðeins verið jákvæðari bankabóluárin 2006 og 2007 og ferðabóluárin 2017, 2018 og 2019 en í báðum tilfellum skapaðist skortur á vinnuafli í mannaflsfrekum greinum. Ekki síst í byggingargeiranum á fyrra þensluskeiðinu og í ferðaþjónustunni meðan sú grein fór með himinskautum.

Fimmta árið á öldinni

Árið 2021 er því fimmta árið á öldinni þar sem fleiri íslenskir ríkisborgarar flytja til landsins en frá því. Hins vegar hafa fleiri erlendir ríkisborgarar flutt til landsins en frá því 19 af þeim 22 árum sem liðin eru frá árinu 2000, sé aldamótaárið meðtalið. Nálgast samanlagður fjöldi aðfluttra erlendra ríkisborgara umfram brottflutta því 55 þúsund á öldinni en sá fjöldi myndi mynda annað fjölmenntasta sveitarfélag landsins, svo dæmi sé tekið.

mbl.is

Heldur hægði á aðflutningi erlendra ríkisborgara milli þriðja og fjórða fjórðungs. Þannig voru aðfluttir erlendir ríkisborgarar umfram brottflutta um 2.200 á þriðja fjórðungi en 700 á fjórða fjórðungi. Ekki er ólíklegt að staða faraldursins hafi haft sitt að segja en Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar hafði mikil efnahagsleg áhrif á síðasta fjórðungi ársins 2021.

Sveiflur milli fjórðunga

Til samanburðar fluttu hingað 350 fleiri á fyrsta fjórðungi og 610 fleiri á öðrum fjórðungi en fluttu frá landinu. Samanlagt eru þetta sem fyrr segir tæplega 3.900 manns.

Til einföldunar má segja að með þessum tölum rætist sú spá Karls Sigurðssonar, fyrrverandi sérfræðings hjá Vinnumálastofnun, að fjölskyldur aðfluttra erlendra ríkisborgara myndu flytja hingað og sameinast þeim. Á hitt ber að líta að sérstaða faraldursins torveldar samanburð við fyrri ár í þessu efni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert