Afi minn bjargaði lífi þínu!

Hallgrímur Jónsson, Moni, hefur flogið í meira en sextíu ár.
Hallgrímur Jónsson, Moni, hefur flogið í meira en sextíu ár. mbl.is/Árni Sæberg

Hann verður áttræður eftir rúma viku en samt er Hallgrímur Jónsson, betur þekktur sem Moni, enn með annan fótinn skýjum ofar, með gilt atvinnuflugmannsskírteini og að skrifa út flugnemendur – sem hlýtur að vera einsdæmi hér á landi.

„Ég þori ekki að fullyrða um það,“ segir Moni, „en læknirinn sem skoðaði mig síðast kvaðst ekki þekkja annað dæmi. Páll vinur minn Halldórsson í Reykjavík er tveimur dögum yngri en ég en hann þyrfti að þreyta próf hjá mér til að endurnýja flugmannsskírteinið sitt.“

Það líst honum víst ekkert á. „Þegar Palli frétti það sagði hann: Nei, þá er ég frekar hættur að fljúga!“

Moni glottir.

Það er aldrei of seint að taka framförum í þessu lífi. Moni vitnar í Pablo Casals, sellistann fræga, í því sambandi. Þegar hann var 92 ára var Casals spurður hvers vegna hann væri enn þá að æfa sig. „Skilurðu það ekki?“ svaraði Casals að bragði. „Ég er enn þá að reyna að bæta mig.“

„Þið áttið ykkur á því, piltar, að Akureyri er vagga flugsins á Íslandi,“ útskýrir Moni fyrir útsendurum Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins. „Hér hefur alltaf verið mikill flugáhugi og margir flugmenn komið héðan gegnum tíðina, sumir hverjir landskunnir. Sem strákur horfði maður á þessa menn eins og kvikmyndastjörnur, Aðalbjörn Kristbjörnsson, Adda Katt, Smára Karlsson, Magnús Guðmundsson, Jóhannes Snorrason og fleiri. Katalínan og Grumman lentu hérna á Pollinum, og flugskýlið var á blettinum sem ég bý á núna, og maður horfði opinmynntur á Grumman fljúga yfir þegar maður var í sveit á Syðri-Bakka, sunnan við Hjalteyri. Svo lágt flaug hann stundum að maður horfði hreinlega niður á hann.“

Moni undir stýri á Piper-vél sem hann hefur margorft flogið. …
Moni undir stýri á Piper-vél sem hann hefur margorft flogið. Einu sinni var séra Pétur Sigurgeirsson, síðar biskup, við hlið Mona á leið til Grímseyjar. „Það var bandvitlaust veður og ég í hálfgerðu basli og missti út úr mér: Djöfullinn sjálfur! Ég er að missa flugbrautina út af snjókomu! Þá svaraði séra Pétur með sinni alkunnu hægð: „Heldurðu að það sé mikil hjálp í honum?!““ mbl.is/Árni Sæberg


Létu sig vaða niður í sælöðrið

Þau eru mörg eftirminnileg flugin sem Moni hefur farið í á sextíu ára ferli. Ekkert þó eins og sumarið 2017. Þegar hann var orðinn 75 ára. Þá tók hann þátt í að bjarga lífi áhafnar bandarískrar skútu suðvestur af Reykjanesi.

„Síminn hringdi klukkan korter í átta að morgni og það var Snæbjörn vinur minn Guðbjörnsson flugstjóri hjá Isavia að spyrja hvort ég væri klár í flug. Neyðarkall hefði komið frá skútu. Ég dreif mig að sjálfsögðu í brækurnar og af stað,“ rifjar Moni upp.

„Þú flýgur,“ sagði Snæbjörn við Mona, „ég sé um hitt.“

„Hann er einn af okkar allra reyndustu leitarmönnum,“ segir Moni.
Það var hífandi vindur, 50-60 hnútar. Þeir höfðu staðsetningu og létu sig vaða niður í sælöðrið. Mikið salt var á rúðunni.

„Við fundum staðinn en sáum samt ekki neitt til að byrja með, þrátt fyrir að fljúga tvisvar eða þrisvar yfir, nema hvítan sjó.“

Loks kom skútan í ljós eftir að þeir skutu upp neyðarblysi; bara flak á floti og mastrið brotið. „Við gáfum Árna Friðrikssyni [hafrannsóknarskipinu] upp nýja staðsetningu. Skipið lagði vindmegin við skútuna og við sáum undir rauðan botninn á Árna. Ég skil ekki hvernig skipstjórinn fór að þessu. Það er ótrúlegt að þeir hafi náð öllum mönnunum þremur um borð, heilum á húfi. Að því búnu máttum við Snæbjörn snúa heim.“

Varst þú í skútunni?

Nokkrum dögum síðar var einn úr áhöfn skútunnar á leið til Boston með Icelandair. Hann kallaði á eina flugfreyjuna og spurði hvort hann mætti fara fram í flugstjórnarklefa til að freista þess að sjá staðinn, þar sem honum var bjargað úr sjónum.

„Varst þú í skútunni?“ spurði flugfreyjan.

„Já.“

„Afi minn flaug vélinni sem fann ykkur.“

Moni fæddist í þessu húsi, Klapparstíg 1 á Akureyri. Það …
Moni fæddist í þessu húsi, Klapparstíg 1 á Akureyri. Það er nú aftur í eigu fjölskyldunnar. mbl.is/Árni Sæberg


Það skipti engum togum að maðurinn táraðist og faðmaði flugfreyjuna að sér, Andreu Thoroddsen, sem einnig er flugmaður. Rétt eins og önnur dótturdóttir Mona, Fríða Arnardóttir. „Skömmu síðar fengum við Snæbjörn bréf frá þessum manni, þar sem hann gerði grein fyrir því hversu tæpt þetta stóð,“ segir Moni en bandaríska strandgæslan heiðraði þá Snæbjörn fyrir afrekið.

Moni ber lof á Snæbjörn sem sé eðalmaður. „Hann hringdi í mig um daginn og sagði að við yrðum að taka saman flug á árinu. Það yrði ábyggilega elsta áhöfn í heimi, 150 ára. Ég áttræður og hann sjötugur.“

Ítarlega er rætt við Mona í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert