Að sögn Veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands má búast við versnandi akstursskilyrðum vegna töluverðs vinds og éljagangs í dag en þó muni fólk geta verið á ferðinni innanbæjar.
„Ég held að fólk geti alveg verið á ferðinni innanbæjar, það má alveg búast við að það verði einhver snjór á götunum og hálka með því. Hins vegar gætu orðið vandræði til dæmis á Hellisheiði og Holtavörðuheiði,“ segir Birgir í samtali við mbl.is.
Gular viðvaranir á öllu vestanverðu landinu tóku víðast hvar gildi klukkan tíu í morgun og verða í gildi til klukkan sex í dag. Samkvæmt Veðurfræðingi hjá Veðurstofu Íslands má búast við hvassviðri og éljagangi og að ekki verði farið að lægja almennilega fyrr en um eða eftir kvöldmatarleyti.
Búist er við að veðrið verði nokkuð svipað á öllu vestanverðu landinu en þó segir Birgir Örn Höskuldsson, Veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands að búast megi við að versta veðrið verði á Norðvesturhluta landsins.