Höfum misst börn úr Covid

Ásdís er hér með eiginmanninum Nolyn og dætrunum Bryndísi Magneu, …
Ásdís er hér með eiginmanninum Nolyn og dætrunum Bryndísi Magneu, tveggja ára, og Sólveigu Lóu, fimm ára. Hún starfar sem barnagjörgæslulæknir í Kansas City.

Í miðríkjum Bandaríkjanna, nánar tiltekið í Kansas City sem liggur á landamærum ríkjanna Missouri og Kansas, býr íslenski læknirinn Ásdís Finnsdóttir Wagner ásamt eiginmanni og tveimur ungum dætrum. Við nöfnurnar „hittumst“ á skjánum og Ásdís leiðir blaðamann í allan sannleikann um lífið í Kansas, starfið á gjörgæslunni og kórónuveiruna sem lætur fólk þar ekki friði frekar en hér.

Lengur en upphaflega planað

Fótbolti og ævintýri drógu Ásdísi upphaflega til Bandaríkjanna.

„Það var nú kannski tilviljun að ég endaði hér. Ég fór út átján ára á fótboltastyrk fyrir næstum tveimur áratugum. Ég byrjaði í háskóla í Missouri því ég vildi spila fótbolta, leika mér og prófa eitthvað nýtt,“ segir Ásdís, en hún hafði spilað fótbolta með Haukum í Hafnarfirði frá barnæsku.

„Fjölskyldan hefur alltaf verið viðloðandi Haukana, en mamma, Sólveig Kristjánsdóttir, er Hafnfirðingur í húð og hár. Pabbi, Finnur Óskarsson, er reyndar Reykvíkingur, en þau hafa búið alla tíð í Hafnarfirði,“ segir Ásdís.  

Í háskóla lagði Ásdís fyrst stund á líffræði og naut lífsins að sparka í bolta þegar tími gafst frá námi.

 „Ég kláraði það nám með fótboltanum og fór svo í læknisfræðina í sama heimabæ, en ég hafði þá kynnst núverandi eiginmanni. Annars hefði ég komið heim til Íslands,“ segir Ásdís og brosir.  

Þannig að ástin hélt þér í Ameríku?

„Já, í raun og veru og ég ílengist svo hér. Maðurinn minn Nolyn er í fasteignabransanum en við kynntumst í gegnum íþróttirnar í háskólanum. Ég hef verið hér ansi mikið lengur en upphaflega var planað.“

Lítill bróðir dó vöggudauða

Eftir læknisfræðina fór Ásdís í sérnám í barnalækningum á Children’s Mercy Hospital í Kansas City en hann er einn stærsti barnaspítalinn á þessu svæði Bandaríkjanna.

„Ég tók svo þriggja ára starfsnám í viðbót við það í gjörgæslulækningum barna og vinn nú á barnagjörgæslunni hér,“ segir Ásdís og bætir því við að raungreinar hafi alltaf verið á áhugasviðinu, allt frá æsku.

„Síðan þróaðist sá áhugi enn lengra með tímanum. Ég hafði áhuga á lækningum og svo hef ég gaman af börnum og því endaði ég í barnalækningum. Þetta blundaði alltaf í mér,“ segir Ásdís og nefnir aðra ástæðu fyrir því að hún valdi barnalækningar.

„Við fjölskyldan lendum í því að yngri bróðir minn, Konráð Gauti, deyr skyndilega úr vöggudauða rétt fyrir jólin ´88. Hann var þá tæplega fjögurra mánaða gamall og ég að verða fimm ára. Það er auðvitað gífurlegt áfall og sorg fyrir foreldra mína og alla fjölskylduna, en við höfum haldið minningu hans á lofti í gegnum árin. Þessi reynsla hafði líka þau áhrif að draga mig að barnalækningum.“

Börn eru ótrúlega sterk

Children’s Mercy-barnaspítalinn er afar stór og þjónar hluta af Missouri og öllu Kansasríki. Ásdís vinnur langar vaktir, annaðhvort á daginn eða á nóttunni.

„Við erum með 67 gjörgæslupláss sem eru fyrir börn frá því að vera nokkurra daga gömul og upp í tvítugt. Einn þriðji deildar er undir hjartagjörgæslu en restin er fyrir almenna gjörgæslu og þá fyrir alvarlega veik börn eða börn sem lenda í slysum,“ segir Ásdís og viðurkennir að vinnan taki oft á andlega.

Ásdís sést hér með öðrum læknum og litlum níu ára …
Ásdís sést hér með öðrum læknum og litlum níu ára gömlum dreng sem dvaldi í þrjá mánuði á gjörgæslu en hafði betur.

„Þetta er álagsvinna og oft erfitt að sjá börn og fjölskyldur þeirra ganga í gegnum hræðilega tíma. En svo sér maður líka börn koma mjög vel út úr veikindum. Börn eru ótrúlega sterk og gaman að geta fylgt þeim í gegnum þetta og sjá þau svo fara heil heim,“ segir Ásdís.

„Það er ekki hægt að neita því að þetta er vissulega erfitt starf og tekur oft á sálina.“

Fjölgun barna með Covid

Hefur þú fengið til þín börn sem þurft hafa á gjörgæslu að halda vegna Covid?

„Já, við höfum fengið þó nokkuð mörg börn með Covid, oft þá með lungnasjúkdóma eða bólgusjúkdóminn MIS-C sem kemur um mánuði eftir Covid-sýkingu. Við höfum séð töluvert mikla fjölgun síðan í ágúst þegar delta og núna ómíkron byrjuðu. Við greinum ekki mikið á milli og vitum því ekki í raun hver er með hvaða afbrigði, en erum nú að sjá flest börn frá upphafi faraldursins, þótt sum þeirra þurfi ekki á gjörgæslu að halda heldur eru inni á almennri deild,“ segir Ásdís og segir nú þrjátíu börn inniliggjandi með Covid.

„Þarna eru krakkar á öllum aldri og ekkert endilega með undirliggjandi sjúkdóma.“

Eru þau öll óbólusett?

„Já. Við erum tiltölulega nýbyrjuð að bólusetja fimm ára og eldri,“ segir Ásdís og vonast eftir fækkun innlagna barna eftir því sem fleiri börn eru bólusett.

„Við höfum misst nokkur börn úr Covid, en þau börn hafa fengið alvarlega lungnabólgu. Ég vona innilega að þetta fari að skána og að við förum að sjá árangur af bólusetningum.“ 

Nánar er rætt við Ásdísi Finnsdóttur Wagner í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert